Atburðarásin, eftir að flug MH17 var skotið niður yfir Austur-Úkraínu á fimmtudag, hefur verið hröð. Vopnaðir uppreisnarmenn umkringdu staðinn og tóku stjórn á vettvangi nánast um leið og fréttir bárust af árásinni. Þeir stjórna vettvangi, hafa hafist handa við hreinsunarstarf og komið líkum farþega í geymslu í kældum lestarvögnum.
Hreinsunarfólkið kveðst hafa fundið 251 lík og 86 líkamsparta á svæðinu þar sem brakið úr þotunni dreifðist yfir. Nærri 200 líkum hefur verið komið fyrir í lestarvögnum og hefur önnur lest verið send á lestarstöðina í Torez nærri svæðinu, svo hægt sé að geyma líkamsleifar fleirri farþega. Hollenskir réttarlæknar, sem komnir eru til Torez, segjast ekki geta staðfest fjölda þeirra sem safnað hefur verið í lestarvagna en segja geymsluna „ásættanlega“.
Train filled with unknown number of bodies from flight #MH17 still idling in #Torez. Destination unknown. pic.twitter.com/1aR2Ztbp4Y
— Christopher Miller (@ChristopherJM) July 20, 2014
Auglýsing
Fréttir bárust svo af því í morgun að úkraínski herinn hafi gert árás á vígi uppreisnarmanna í Donetsk, um 70 kílómetra frá Torez. Það eru fyrstu átökin síðan farþegaþotunni var grandað. Úkraínustjórn lítur á uppreisnarmenn í austurhluta landsins sem hryðjuverkamenn og svöruðu því til að „virk" sókn gegn hryðjuverkamönnunum væri enn í gangi. Fjórir hafa fallið í átökunum í dag og skemmdir hafa verið unnar á lestakerfi borgarinnar. Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunnar Evrópu (ÖSE) í Torez segja að átökin geti haft áhrif á flutning líka frá vettvangi.
Enn pressað á Pútín
Báðar fylkingarnar sem takast á í Úkraínu, þ.e. Úkraínustjórn og uppreisnarmenn, beita óvægnum aðgerðum. Óvissan um hver hafi grandað þotu Malaysia Airlines á fimmtudag er enn ríkjandi. Fylkingarnar bentu á hvor aðra og Rússland var jafnvel talið hafa átt beinan þátt í að skjóta niður MH17. Fljótlega hafði leyniþjónusta Bandaríkjanna rýnt í gervihnattamyndir sem teknar voru yfir Úkraínu, þegar árásin átti sér stað, og voru sannfærðir um að skotið hafi verið á þotuna af jörðu niðri frá svæði sem uppreisnarmenn stjórna í austurhluta Úkraínu.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur þurft að sitja af sér gríðarlegt óveður vegna atburðarins á fimmtudag. Rússar eru taldir hafa útvegað vopnin sem grönduðu vélinni, jafnvel þjálfað hermenn uppreisnarinnar í að virkja vopnið og skjóta úr því. Pútín hefur ekki svarað þessum ásökunum beint, en hann hefur gagnrýnt stjórnvöld í Úkraínu fyrir að hefja árás á Donetsk. „Enginn hefur eða á að hafa rétt á að nota svona harmleik sem ástæðu árásar,“ sagði Pútín. Arsení Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu, svaraði því hins vegar til að um alþjóðleg átök væri að ræða, ekki bara á milli Úkraínu og Rússlands. Ríki á vesturlöndum hafa undanfarna daga gert skýra kröfu um að alþjóðleg rannsókn fái að fara fram á árásinni og vettvangi í Rússlandi.
Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunnar Evrópu (ÖSE) eru nú á vettvangi og safna upplýsingum. Það er þó ekki eiginlegt rannsóknarteymi heldur aðeins augu og eyru Evrópu í Úkraínu, ef svo má að orði komast. Þá herma fregnir að Alexander Borodaí, leiðtogi uppreisnarmanna, hafi flugrita MH17 undir höndum. Hann segist þó aðeins vera að bíða eftir að fulltrúar Malaysia-flugfélagsins komi og sæki „svarta kassan“.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, pressaði enn á stjórnvöld í Rússlandi í viðtali við CNN í gær. Hann sagðist hafa átt beinskeytt samtal við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. „Það skilar vonandi einhverju,“ sagði Kerry. „Ég er sannfærður um að Obama muni á næstunni ræða aftur við Pútín til þess að leita leiða til að taka ákveðin skref fram á við. Ég minni á að daginn áður en þessi atburður varð [árásin á MH17] setti Obama enn harðari viðskiptaþvinganir á Rússland. Þær þvinganir hafa áhrif á orkufyrirtækin þeirra, á varnarmálafyrirtækin þeirra og bankana þeirra. Nokkrir af stærstu bönkum Rússa geta ekki nálgast markaði,“ sagði Kerry við CNN.
Á NBC, annarri bandarískri sjónvarpsstöð, sagði Kerry að vettvangnum væri nú spillt af „drukknum aðskilnaðarsinnum sem stafla líkum í trukka og flytja af svæðinu.“ Þar benti hann á að það væri í andstöðu við það sem Pútín hafi þegar sagt, það sem Bandaríkjamenn segja rauðan þráð í samskiptum sínum við Pútín. Pútin flutti í morgun óvenjulegan pistil í rússnesku sjónvarpi þar sem hann sagði meðal annars að nauðsynlegt væri að tryggja öryggi alþjóðlegra sérfræðinga á hörmungasvæðinu. Reuters-fréttastofan segir Pútín ætla að hitta öryggisráð Rússneska sambandsríkisins síðar í dag til að ræða hvernig hægt verði að tryggja fullveldi Rússlands eftir að átökin hófust á ný í Donetsk.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman í dag og greiðir atkvæði um ályktun sem fordæmir árásina á þotuna og fer fram á að ábyrgðarmenn verði sóttir til saka. Þá fer öryggisráðið enn fremur fram á að vopnaðar sveitir spilli ekki vettvangi þar sem brak þotunnar dreifðist, verði ályktunin samþykkt. Óvíst er hvort Rússland muni styðja ályktunina eða ekki.
Bera uppreisnarmenn ábyrgð?
Í viðtalinu við CNN-sjónvarpsstöðina í gær dró John Kerry upp nokkuð skýra mynd af því með hvaða augum Bandaríkin líta á átökin í Úkraínu í kjölfar árásarinnar á MH17. Ljóst er að Bandaríkin telja uppreisnarmenn hafa mjög líklega grandað farþegaþotunni með rússnesku vopni. „Við vitum með vissu að síðastliðinn mánuð hefur gríðarlegt magn vopna farið yfir landamærin frá Rússlandi til Úkraínu. Fyrir nokkrum vikum fór bílalest um 150 ökutækja með hermenn, fjölmarga skotflaugapalla, skriðdreka og stórskotalið. Allt fengu uppreisnarmenn,“ sagði Kerry.
Rússneska varnarmálaráðuneytið segist hins vegar hafa upplýsingar um að úkraínsk herflugvél hafi verið í þriggja til fimm kílómetra radíus frá farþegaþotu Malaysia Airlines áður en hún hrapaði. Ráðuneytið segir jafnframt að engin vopn, hvað þá SA-11 BUK, hafi farið frá þeim til uppreisnarmanna. Þá fullyrða Rússar að þeir hafi ekki orðið varir við nein flugskeyti sem stefnt hafi verið að MH17 og skora á Bandaríkjamenn að birta slíkar myndir „ef þeir eiga þær.“
„Við vitum með vissu að uppreisnarmenn hafa hlotið þekkingu frá Rússum um hvernig á að virkja háþróuðu SA11-kerfin [skotkerfið sem grandaði MH17] og við vitum að þeir hafa slík kerfi,“ segir Kerry. „Við vitum að þeir höfðu þetta vopn á mánudeginum fyrir árásina því frá því var sagt á samfélagsmiðlum og á fimmtudeginum sem árásin var gerð, vitum við að nokkrum klukkustundum síðar var þessu sama vopni komið í gegnum tvo bæi í nágrenni við skotstaðinn. Við vitum það eftir að hafa skoðað myndir frá augnablikinu sem skotið reið af, við sjáum að þaðan var flauginni skotið og feril skotflaugarinnar sýnir að hún fór í farþegaþotuna.“
Strax eftir árásina hófu uppreisnarmenn að stæra sig af árásinni á samfélagsmiðlum. Héldu þeir að um væri að ræða úkraínska flutningavél en þegar í ljós kom að farþegaþota hefði orðið fyrir skotinu var tístum og stöðuuppfærslum eytt. Uppreisnarmenn hafa síðastliðinn mánuð skotið niður um það bil tólf flugvélar, þar af tvær stórar flutningavélar.
Deleted Tweet from @dnrpress claiming to have AA Buk System: http://t.co/1fowD03XXh Nothing's ever really deleted: pic.twitter.com/6KRCPXDvqe — Igor Brigadir (@IgorBrigadir) July 17, 2014
„Og nú höfum við séð myndband sem sýnir vopnið á ferð um ákveðið svæði þarna og yfir landamærin til Rússlands. Á það vantar, í það minnsta, eina skotflaug,“ sagði Kerry. Ljóst þykir því að uppreisnarmenn hafi grandað farþegaþotunni en sagan af vopninu er áhugaverð því hún tengir Rússa með beinum hætti við árásina.
https://t.co/I8Ee1KtODv Buk SAM deployed by #Russians (sighted en route fr #Torez/#MH17 site to #Snizhne, #Ukraine) pic.twitter.com/uFqgyf5FSx
— Ukrainian Updates (@Ukroblogger) July 17, 2014