Átta einstaklingar greindust með COVID-19 innanlands í gær, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is. Allir sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví við greiningu. Alls voru tekin rúmlega tvöþúsund sýni innanlands.
Þetta eru færri smit en greindust í gær – en þá voru þau 17 og þar af tvö hjá einstaklingum sem voru utan sóttkvíar. Mörg smitanna eru hjá nemendum í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.
Fimm smit greindust í landamæraskimun í gær, öll í fyrri skimun einstaklinga sem komu hingað til lands.
Harðar aðgerðir tóku gildi á miðnætti
Á miðnætti tók gildi reglugerð um samfélagslegar takmarkanir í nafni sóttvarna, sem eru þær hörðustu frá því að faraldurinn fór af stað hér innanlands fyrir rúmu ári síðan.
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar sögðu að með því að stíga mjög fast til jarðar væri vonast til þess að sóttvarnaraðgerðir myndu kveða þá útbreiðslu smita sem virðist í fæðingu niður á skemmri tíma.
Tíu manna fjöldatakmarkanir eru nú meginreglan, en 30 manns mega reyndar sækja athafnir á vegum trúfélaga. Einungis börn fædd 2014 og síðar eru undanþegin þessum takmörkunum.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar. Sviðslistum og kvikmyndahúsum hefur verið gert að hætta starfsemi á ný. Íþróttastarf er sömuleiðis óheimilt, bæði hjá börnum og fullorðnum.
Barir og skemmtistaðir eru nú lokaðir, en veitingastaðir mega vera opnir til kl. 22 á kvöldin, með takmörkunum.
Margvísleg starfsemi í samfélaginu hefur verið gert að stöðva, en þó reyndar ekki starfsemi hárgreiðslustofa og snyrtistofa og önnur álíka þjónusta.
Grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum er lokað fram að páskafríi og unnið er að því að útfæra starfsemi þeirra í framhaldinu. Leikskólar eru áfram opnir.