KSÍ hefur lítið að segja um skiptingu réttindagreiðslna til liða í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu en Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir að hægt sé að greina jákvæð skref. Kvennalið fengu til að mynda í fyrsta sinn greiðslur fyrir sjónvarpsréttindi á síðustu leiktíð.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í máli Vöndu í nýlegu viðtali í Kjarnanum þar sem hún fer yfir fyrsta rúma árið í starfi formanns KSÍ, gagnrýnina sem virðist fylgja starfinu og baráttu hennar fyrir jafnréttismálum innan og utan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Karlalið frá 20 milljónir – Kvennalið fá 2,5 milljónir
Kjarninn greindi frá því í nóvember að karlalið í Bestu deildinni, efstu deild í knattspyrnu, fengu 20 milljónir króna í réttindagreiðslur frá Íslenskum Toppfótbolta á síðustu leiktíð en kvennalið í Bestu deildinni fengu 2,5 milljónir króna.
Íslenskur Toppfótbolti eru hagsmunasamtök íþróttafélaga sem reka lið í efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu. Alls eiga 29 félög, með mörg hundruð leikmenn, aðild að Íslenskum Toppfótbolta. Um er að ræða réttindagreiðslur sem snúa að sjónvarpsrétti, gagnarétti og streymisrétti sem tilheyra liðum í Bestu deildum karla og kvenna. Skiptingin virðist ekki ráðast af jafnréttissjónarmiðum þar sem karlar fengu átta sinnum hærri greiðslur en kvennalið frá Íslenskum Toppfótbolta fyrir síðasta keppnistímabil.
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta, segir markaðslegar ástæður fyrir muninum en að það sé alfarið undir félögunum sjálfum komið hvernig greiðslunni er skipt.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í skriflegu svari til Kjarnans í nóvember að KSÍ hafi ekki haft vitneskju um skiptingu þeirra fjármuna sem tryggðir eru með samningsgerð Íslensks Toppfótbolta til aðildarfélaganna. Klara sagði KSÍ meðvitað um samningsumboðið sem Íslenskur Toppfótbolti hefur fyrir hönd þeirra félaga sem eru innan hagsmunasamtakanna en ekki komið að ákvarðanatökunni. Ábyrgðin á skiptingu greiðslnanna sé alfarið hjá Íslenskum Toppfótbolta.
„Frábært að fara frá núlli í tvær og hálfa milljón“
Vanda hefur verið formaður KSÍ í rúmt ár. Jafnréttismál eru henni ofarlega í huga og í raun hennar hjartans mál og ein af ástæðum þess að hún ákvað að taka slaginn sem formaður KSÍ. En hún segir KSÍ í raun lítið hafa um skiptingu greiðslnanna að segja. „Þetta er ekki okkar. Íslenskur Toppfótbolti ræður þessu, þar sem þeir fara með hagnýtingu réttindanna. Ég veit að þeir byggja skiptinguna á því sem þeir fengu frá samningsaðilum sínum, varðandi virði,” segir Vanda.
Aðspurð hvort tilefni sé til að endurskoða samningsumboðið sem Íslenskur Toppfótbolti hefur segir Vanda að ákveðið hafi verið á ársþingi KSÍ fyrir nokkrum árum að Íslenskur Toppfótbolti fengi hagnýtingu markaðsréttinda. „Þetta var sett inn í lög KSÍ og þannig er það bara.“
Þó munurinn sé mikill segir Vanda að hægt sé að greina jákvæð skref í þróuninni, þetta sé til að mynda í fyrsta sinn sem kvennalið frá greiðslu fyrir sjónvarpsréttindi.
„Ég bara vona og trúi að þetta verði meira næst. Í staðinn fyrir að mála skrattann á vegginn og vera alltaf einhvern veginn neikvæð þá er líka hægt að hugsa það þannig að það er frábært að fara frá núlli í tvær og hálfa milljón. Jú, þetta gæti verið meira en þetta er byrjunin.“
Þróunin sé einnig á réttri leið í Evrópu þar sem UEFA greiðir kvennaliðum fyrir þátttöku í Evrópukeppni sem hefur ekki verið gert áður. Félögin í Bestu deild kvenna eru því að fá mun meiri fjármuni en áður hefur þekkst. „Ég reyni alltaf að sjá tækifærin og björtu hliðarnar, og þetta er á leiðinni. Ég ætla að vera vongóð og trúa því að þetta sé það sem koma skal og að þessar tölur muni bara hækka.“
Vanda bendir einnig á að KSÍ sjái um skiptingu greiðslna í aðalkeppni Mjólkurbikarsins og þar fá karla- og kvennaliðin jafn háar greiðslur út frá árangri í keppninni, bæði hvað varðar verðalaunafé og sjónvarpsgreiðslur, samtals um 27 milljónir króna. Reyndar er heildarupphæðin sem rennur til allra karlaliðanna hærri en það stafar af því að mun fleiri karlalið taka þátt.
„Ég vil að það sé kvartað“
Anna Þorsteinsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, gefur lítið fyrir markaðslegar ástæður fyrir ójafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar og sagði í samtali við Kjarnann í kjölfar umfjöllunar um skiptingu greiðslna í efstu deildum að knattspyrnukonur séu orðnar þreyttar á þeirri skýringu. Vanda sýnir viðhorfi Önnu fullan skilning en segir málið snúast um ákvarðanir, ákvarðanir sem munu vonandi breytast í náinni framtíð.
„Ég vona það og ætla að trúa því. Það er hægt að bölsótast en það er líka hægt að sjá allt þetta jákvæða. Það er allt í lagi, ég er ekki að segja að það megi ekki kvarta og ég er sjálf búin að gera það í gegnum árin, oft. En við megum samt ekki gleyma skrefunum sem hafa verið tekin,“ segir Vanda.
Rými til bætinga er samt sem áður til staðar. „Það er bara partur af því sem ég vil sannarlega gera, að laga allt sem þarf að laga. Og það er stefnan. Það er svo mikill meðbyr,“ segir Vanda og nefnir EM á Englandi síðasta sumar þar sem hvert áhorfendametið var slegið á fætur öðru, rétt eins og í meistaradeildinni í vor þar sem mættu yfir 90 þúsund manns á völlinn, bæði á undanúrslitaleik og úrslitaleikinn.
„Allt tal um að kvennafótbolti sé ekki áhugaverður og að enginn hafi áhuga á honum, ég vísa því til föðurhúsanna.“