Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, hvetur starfsfólk á leikskólum Reykjavíkurborgar til að sækja um lausar stöður í Kópavogi í færslu sem hún birti á Facebook. Hún segir skort á starfsfólki, faglærðu og ófaglærðu, meginástæðu þess að börn komast ekki fyrr inn á leikskóla í Kópavogi.
Tilefni færslunnar er meint yfirmönnun á leikskólum í Reykjavík. Í fréttatilkynningu sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkur sendi frá sér á miðvikudag kemur fram að leikskólar borgarinnar hafi verið yfirmannaðir vegna kórónuveirufaraldurs. Í tilkynningunni, sem send var fjölmiðlum í gær segir: „Það er mat skóla- og frístundasviðs að leikskólar Reykjavíkurborgar hafi á árinu 2021 verið yfirmannaðir um 1 til 2 stöðugildi á leikskóla en samtals eru borgarreknir leikskólar 68. Á þessu ári var jafnframt yfirmönnun vegna hólfunar og aðgerða í leikskólum vegna Covid í upphafi árs og eru vísbendingar um að ennþá sé eitthvað um yfirmönnun sé tekið mið af rekstrar- og mönnunarlíkani leikskóla.“
Fréttatilkynningin var send í kjölfar þess að í áætlunum borgarinnar, sem kynntar voru með tilkynningu til Kauphallar á mánudag, kom meðal annars fram að stöðugildi í leikskólum yrðu færri á næsta ári heldur en á þessu ári.
Fjölga þurfti starfsmönnum „umfram það sem hefðbundið er“
Þessi breyting er útskýrð nánar í fréttatilkynningu borgarinnar þar sem segir að ástæða þess að gert sé ráð fyrir færri stöðugildum á næsta ári en þessu ári sé að „starfsmönnum var bætt við á leikskólum borgarinnar vegna sóttvarnarreglna sem gerðu ráð fyrir hólfun á vinnustöðum. Þess vegna fjölgaði starfsfólki leikskóla á árunum 2020-2022 en dregst nú lítið eitt saman milli ára.“
Ennfremur segir að leikskólar Reykjavíkur eins og aðrar stofnanir hafi þurft að glíma við óvenjulegar aðstæður í starfsemi sinni síðustu tvö árin sökum heimsfaraldurs. „Til að halda leikskólum opnum og tryggja þjónustu við barnafjölskyldur í borginni, var m.a. farið í hólfanir og aðrar aðgerðir sem leiddu til þess að fjölga þurfti starfsmönnum umfram það sem hefðbundið er í venjulegu árferði.“
Ásdís vísar í þessar fréttir af fækkun stöðugilda í leikskólum í Reykjavík í færslu sinni. „Á leikskólum Kópavogs er skortur á starfsfólki, faglærðu og ófaglærðu, megin ástæða þess að börn komast ekki fyrr inn á leikskóla bæjarins. Nú skyndilega virðist slíkur vandi ekki vera til staðar í Reykjavík heldur þveröfugt, leikskólar borgarinnar eru ofmannaðir! Biðlistarnir í Reykjavík eru samt enn langir. Í ljósi stöðunnar í Reykjavík hvet ég starfsfólk á leikskólum borgarinnar til að kynna sér þau störf sem eru í boði í Kópavogi,“ segir í færslu bæjarstjórans.
Í tilkynningunni frá borginni kemur fram að áætlun ársins 2023 muni taka breytingum, hún byggi á fjölda barna í leikskólum borgarinnar í byrjun september 2022. Verði breytingar á barnafjölda eða nýr leikskóli opni, þá verði þá bætist við grunnáætlunina sem birt var í vikunni. Verið sé að yfirfara mönnun allra stofnana í samanburði við mönnunarlíkön og fjárheimildir.
Á leikskólum Kópavogs er skortur á starfsfólki, faglærðu og ófaglærðu, megin ástæða þess að börn komast ekki fyrr inn á...
Posted by Ásdís Kristjánsdóttir on Thursday, November 3, 2022