Guðbrandur Jóhannesson, réttargæslumaður brotaþola í Bræðraborgarstígsmálinu, segir í samtali við Kjarnann að niðurstaða héraðsdóms í máli ákæruvaldsins á hendur Marek Moszczynki hafi ekki komið á óvart en hann var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins fyrir brennu, tilraun til manndráps og þrefalt manndráp þann 3. júní síðastliðinn. Hann var metinn ósakhæfur og gert að sæta vistun á viðeigandi réttargæslustofnun.
Var Marek gert að greiða fyrrverandi íbúum á Bræðraborgarstíg skaða- og miskabætur, sem nema allt frá 500 þúsund krónum upp í 11 milljónir.
„Fyrir suma umbjóðendur mína eru þessar bætur aðeins dropi í hafi miðað við það tjón sem þeir hafa orðið fyrir,“ segir Guðbrandur en hann kynnti niðurstöðuna fyrir umbjóðendum sínum strax sama dag og dómur féll. Vegna þess hve margir þeir eru af mismunandi þjóðernum þá tók nokkra daga að upplýsa þá um málið með hjálp túlka.
„Þeim fannst þetta svo sem viðbúið ef vísað er til þessara matsgerða sem lágu fyrir í málinu. Þannig að þetta kom ekki það mikið á óvart,“ segir hann og bætir því við að matsmenn hafi verið sammála um að þessi verknaður Mareks hafi ekki verið skipulagður fyrirfram – heldur algjörlega handahófskenndur – og því ekki ástæða til að efast um niðurstöðu matsins.
Bætur lágar vegna dómvenju
Guðbrandur bendir á að fallist hafi verið á allar skaðabótakröfur umbjóðenda hans. Miskakröfur hafi hinsvegar verið lækkaðar í öllum tilfellum.
Hann segir að sumir umbjóðenda hans munu óska eftir endurmati á miskabótum ef málinu verður áfrýjað af hálfu verjanda Mareks. Kjarninn greindi frá því í vikunni að ríkissaksóknari ætlaði ekki að áfrýja dómnum.
„Það er ekki hægt að setja tölu á mannslíf, en að mínum dómi eru dæmdar miskabætur fyrir fjölskyldurnar í lægri kantinum. Miskabætur í öðrum sambærilegum málum hafa verið á bilinu 1 til 3 milljónir, þannig bæturnar voru við neðri mörk hvað það varðar. Þannig ef málinu verður áfrýjað, þá verður krafist endurmats á þeim bótum, auk hækkunar á miskabótum fyrir aðra umbjóðendur samhliða.“
Varanlegt andlegt og líkamlegt tjón metið ári síðar
Bendir Guðbrandur á annan bótalið sem nefnist „varanlegt andlegt og líkamlegt tjón“ en slíkt tjón er metið einu ári eftir slys.
„Það er næsti fasi sem ég mun fara í. Þegar ár er liðið frá tjónsatburði er fyrst tilefni til að meta andlegt og líkamlegt tjón þeirra umbjóðenda sem eru að kljást við varanlegar afleiðingar. En margir af umbjóðendum mínum eru enn að vakna upp á nóttinni, eru með mikinn kvíða, fá endurlit af atburðum og eru með margvísleg einkenni áfallastreituröskunar. Ef niðurstaða matsgerðar er að umbjóðendur mínir séu með varanlegt tjón, þá er komið tilefni til að beina kröfum að Marek, bótasjóði – og jafnvel húseigandanum.“ Til greina kemur, að sögn Guðbrands, að sækja bætur til HD verks, félagsins sem átti Bræðraborgarstíg 1.