Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington í dag að Bandaríkin hyggðust endurnýja diplómatísk samskipti við stjórnvöld á Kúbu síðar í sumar. Bandaríski fáninn mun því blakta í Havana í fyrsta sinn síðan 1961. Reuters-fréttastofan greinir frá.
Sendiráði Bandaríkjanna í Havana var lokað fyrir rúmlega 54 árum en hafði þá aðeins starfað í 62 ár. Um leið var formlegum stjórnmálasamskiptum milli landanna slitið. Bandaríkin hafa síðan 1977 rekið sendiskrifstofu í húsnæði svissneska sendiráðsins.
„Fyrir ári síðan þótti það langsótt að Bandaríkin gætu einhverntíma híft fána okkar að húni í Havana,“ sagði Obma í Hvíta húsinu í morgun. „Þetta er sögulegt skref framávið að markmiði okkar um að gera samskipti okkar við Kúbu eðlilegri.“
Bandaríkjaþing hefur enn ekki samþykkt tillögur Obama um að aflétta viðskiptabanninu á Kúbu og forsetinn nýtti tækifærði og brýndi fyrir þinginu að gera það sem fyrst. Hann sagði jafnframt að þrátt fyrir formleg samskipti myndu stjórnvöld í Washington ekki hætta að minna Kúbverja á mannréttindabrot þeirra.
Stjórnvöld á Kúbu hafa hins vegar farið fram á það við stjórn Obama að bandaríski herinn skili landinu við Guantanamo-flóa þar sem herinn rekur herstöð og fangabúðir. Þá óskaði Kúbustjórn eftir því í dag, miðvikudag, að Bandaríkin hætti sjónvarps- og útvarpsútsendingum sínum á Kúbu sem þeir segja vera í áróðursskyni.
Stjórnmálasambandi við Kúbu var slitið árið 1961 þegar Kúbudeilan stóð sem hæst og barátta Bandaríkjanna og Johns F. Kennedy, Bandaríkjaforseta, gegn kommúnisma var í algleymingi.