Bankasýsla ríkisins segir að 2,25 milljarða króna afsláttur sem hafi verið gefin á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði til fagfjárfesta 22. mars síðastliðinn hafi verið umtalsvert minni en almennt gerist í slíkum útboðum. Í athugasemdum sem Bankasýslan birti á heimasíðu sinni í dag vegna fullyrðinga sem settar hafa verið fram um útboðið segir að með útboðsleiðinni sem farin var varð raunin sú að mismunurinn nam aðeins 4,1 prósent. Það var góður árangur.“
Salan fór fram 22. mars síðastliðinn. Þá var áðurnefndur hlutur í Íslandsbanka seldur til 207 fjárfesta (tveimur tilboðum var hafnað) með afslætti. Salan fór fram eftir svokallaðri tilboðsleið og einungis þeim sem uppfylla skilyrði laga um að teljast fagfjárfestar fengu að taka þátt. Auk stórra stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði, tryggingafélög og verðbréfasjóði er það hópur fjárfestingarfélaga og einstaklinga. Hlutirnir voru seldir á nokkrum klukkutímum og ráðgjafar Bankasýslunnar fengu um 700 milljónir króna greitt fyrir að koma þeim í verð.
Gagnrýnin á ferlið hefur verið margþætt. Í fyrsta lagi töldu margir, meðal annars þingmenn sem sitja í þeim nefndum sem gáfu álit um söluna áður en hún fór fram, að selja ætti einvörðungu til stórra fjárfesta sem hefðu fyrirætlanir um að vera langtímaeigendur að Íslandsbanka. Komið hefur í ljós að svo var ekki, enda keyptu alls 59 fjárfestar fyrir minna en 30 milljónir króna og sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir einungis 1,1 milljón króna. Bent hefur verið á að ekkert hafi kallað á að selja hafi þurfti minni fjárfestum hlut í bankanum með afslætti. Þeir gætu einfaldlega keypt á eftirmarkaði.
Í þriðja lagi hefur verið gagnrýnt hverjir fengu að kaupa, en listi yfir kaupendur var loks birtur á miðvikudag eftir mikinn þrýsting þar um. Á honum er að finna, meðal annarra, föður fjármálaráðherra, starfsmenn söluráðgjafa útboðsins, fjölmarga aðila sem voru fyrirferðamiklir í bankarekstri fyrir bankahrun, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðareigendur og einstaklinga sem fáum hafði fyrirfram dottið í hug að teldust vera fagfjárfestar.
Kostnaðurinn ekki hærri en almennt megi gera ráð fyrir
Í athugasemdunum sem birtar voru í dag hafnar Bankasýslan allri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framkvæmd útboðsins. Þar segir að kostnaðurinn við útboðið, rúmlega 700 milljónir króna, hafi ekki verið hærri en almennt megi gera ráð fyrir í slíkum útboðum. Hún segir það ekki nákvæmt þegar sagt er að markmið útboðsins hafi verið að lágmarka kostnað heldur hafi eitt af markmiðum þess verið að halda kostnaði í lágmarki. Það hafi tekist.
Þá segir Bankasýslan að það hafi verið gagnrýnt að „sumir fengu að kaupa, en aðrir ekki“.Að hennar mati sé réttara að segja að sumir hæfir fjárfestar hafi keypt en aðrir ekki. „Útboðinu var beint að öllum hæfum fjárfestum. Til hæfra fjárfesta teljast viðurkenndir gagnaðilar, svo sem lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög, og aðrir fagfjárfestar, sem fjármálafyrirtæki hafa metið sem slíka, á grundvelli lagaskilyrða um eignastöðu, viðskiptaumsvif, og reynslu og þekkingu á fjármálamarkaði. Engin veruleg hindrun var í vegi hæfra fjárfesta að óska þátttöku í útboðinu. Bankasýsla ríkisins leggur ekki mat á hvort fjárfestar uppfylli skilyrði þess að teljast fagfjárfestar. Slíkt mat liggur lögum samkvæmt hjá fjármálafyrirtækjum.
Gagnrýnt hefur verið harðlega að engin þörf hafi verið á því að selja mörgum litlum fjárfestum sem keyptu í útboðinu á afsláttarkjörum í lokuðu útboði. Þannig keyptu 59 þeirra 207 sem tóku þátt í útboðinu fyrir minna en 30 milljónir króna. Sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir um 1,1 milljónir króna. Þingmenn sem sátu í þeim nefndum sem skiluðu áliti um söluferlið í aðdraganda þess hafa flestir sagt að það hafi verið þeirra skilningur að til stæði að selja hlutinn til stærri aðila.
Í athugasemdum Bankasýslunnar segir að það hafi aldrei komið fram í tillögu Bankasýslu ríkisins, greinargerð Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, kynningum stofnunarinnar fyrir þingnefndum eða áliti þingnefndanna sjálfra að til stæði að selja einungis til stærri aðila. „Þá hefði slíkt útboð að mati Bankasýslunnar síður samrýmst meginreglum laga um dreift og fjölbreytt eignarhald, jafnræði bjóðenda og að leita skyldi markaðsverðs.“
Vildi að Bankasýslan segði af sér
Um helgina sagði Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, að hann teldi að forstjóri og stjórn Bankasýslu ríkisins, sem hafði umsjón með sölu á hlut ríkisins í umboði fjármála- og efnahagsráðherra, ættu að víkja til að auðvelda endurheimt á trausti. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sagði við mbl.is í gær að hann ætli ekki að víkja.
Enginn stjórnarþingmaður hefur hins vegar farið fram á að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, verði látinn sæta ábyrgð á sölunni en hann tók ákvörðun um að hefja umrætt söluferli og tók endanlega ákvörðun um að selja hlutina í Íslandsbanka með þeim hætti sem gert var. Þorri stjórnarandstöðunnar hefur krafist þess að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis um söluna en stjórnarþingmenn lagst gegn því. Þess í stað lagði Bjarni fram beiðni til Ríkisendurskoðunar um að framkvæma stjórnsýsluúttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.