„Í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru ábendingar um atriði í undirbúningi og framkvæmd sölunnar sem að mati stofnunarinnar hefðu betur mátt fara. Bankasýsla ríkisins er ósammála Ríkisendurskoðun um flest þessi atriði sem sum hver afhjúpa takmarkaða þekkingu stofnunarinnar á viðfangsefninu.“
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins sem send var til fjölmiðla síðdegis í dag.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem birt var í dag, var söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Stofnunin segir fjölþætta annmarka hafa verið á sölunni. Í niðurstöðu hennar segir að standa hefði átt betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat réð því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta af söluferlinu var vanmetin.
Hún gengst þó við þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslunni að betur hefði mátt standa að kynningu á útboðinu til almennings en tekur þó fram að framkvæmd sölunnar hafi verið kynnt vel fyrir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og viðeigandi þingnefndum.
Segir ekki hafa skort á gagnsæi eða upplýsingamiðlun
Bankasýslan hafnar því mati Ríkisendurskoðunar að tilboðsfyrirkomulagið, sem beitt var við söluna á hlutnum til 207 fjárfesta í lokuðu útboði, samrýmist illa starfsháttum opinberrar stjórnsýslu og segist ekki sjá að skort hafi á gagnsæi og upplýsingamiðlun í aðdraganda sölunnar.
Þá segir stofnunin að því sé ranglega haldið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að Bankasýslan hafi ekki verið nægilega meðvituð um heildareftirspurn fjárfesta þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin. „Fullyrðing Ríkisendurskoðunar um þetta atriði samræmist ekki gögnum málsins.“
Á meðal þess sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi var að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum en það sem selt var á. Tilboð bárust í allan eignarhlutinn á dagslokagengi Íslandsbanka þann dag, 122 krónur á hlut, eða á hærra verði, en samt var ákveðið að selja á 117 krónur á hlut sem var 2,25 milljörðum króna undir dagslokagenginu. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar voru skýr merki um að endanlegt söluverð hafi „fyrst og síðast ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta“ og að frekari hækkun gæti haft neikvæð áhrif á þróun hlutabréfaverðs bankans að sölu lokinni.
Þessu hafnar Bankasýslan og segir að hvers kyns hugmyndir um um hærra verð hefðu teflt útboðinu í tvísýnu, „Umsjónaraðila útboðsins, innlendir sem erlendir, auk sjálfstæðra ráðgjafa Bankasýslu ríkisins, voru allir sammála um að lokaverð skyldi vera 117 krónur á hlut.“
Verðið, 4,1 prósent undir markaðsvirði, hafi auk þess verið hagstætt í alþjóðlegum samanburði.
Afstaðan endurspegli „takmarkaða reynslu af sölu hlutabréfa“
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er á það bent að Bankasýsla ríkisins hefði þurft að ákveða áður en söluferlið hófst með hvaða hætti skyldi leggja mat á tilboð ef önnur atriði en hæsta verð áttu að ráða. Æskilegt hefði jafnframt verið að slík viðmið væru skráð og að fyrir lægi hvernig ætti að beita þeim.
Ætla að birta athugasemdir sínar á vefsíðu sinni
Bankasýsla ríkisins segist hafa í skriflegum athugasemdum til Ríkisendurskoðunar við drög að skýrslu stofnunarinnar gert ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum. „Þótt tekið hafi verið mið af ýmsum athugasemdum í endanlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar er óheppilegt, og varla í anda góðra stjórnsýsluhátta, að stofnunin skuli ekki gera betur grein fyrir sjónarmiðum Bankasýslu ríkisins um einstök atriði en raun ber vitni.“
Bankasýslan ætlar því að birta athugasemdir sínar við skýrsluna opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar innan tíðar. Vert er að taka fram að ríkisstjórnin hefur þegar boðað að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.