Barclays bankinn var í dag sektaður af hinum ýmsu stofnunum og eftirlitsaðilum í Bandaríkjunum og í Bretlandi um 1,5 milljarða sterlingspunda, eða tæplega 312 milljarða íslenskra króna, fyrir misnotkun á millibankavöxtum á gjaldeyrismarkaði, svokölluðum LIBOR vöxtum. Þar af er bankanum gert að greiða breska fjármálaeftirlitinu 284 milljónir sterlingspunda, sem er hæsta sektarupphæð sem stofnunin hefur lagt á fjármálastofnun fyrr og síðar. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Bankinn er í hópi fimm alþjóðlegra banka sem hafa samþykkt að greiða samtals 3,7 milljarða sterlingspunda, eða tæplega 770 milljarða íslenskra króna, í sektargreiðslur vegna aðildar sinnar að fjármálahneykslinu, sem náði hámarki árið 2008.
Bankarnir höfðu óeðlileg áhrif á millibankavexti í Lundúnum, sem eru reiknaðir út frá vöxtum helstu banka í borginni og notaðir víða um heim, með því að hafa ólöglegt samráð um hvaða vaxtastig þeir ætluðu að setja hjá sér.
Fjórir bankar, Citicorp, JPMorgan, Barclays og RBS, hafa lýst yfir sekt sinni varðandi misnotkun á gjaldeyrismarkaði með þessum hætti og svissneski bankinn UBS tilkynnti á miðvikudaginn að hann muni greiða 352 milljónir sterlingspunda vegna ásakanna um að bankinn hafi komið að málinu.
Þá hefur breski Barclays bankinn sömuleiðis rekið átta starfsmenn fyrir aðild sína að fjármálahneykslinu.
Georgina Philippou, settur forstjóri breska fjármálaeftirlitsins, segir himinháa stjórnvaldssekt stofnunarinnar til marks um alvarleika brotanna og hversu hart verði tekið á sambærilegum málum í framtíðinni. „Í stað þess að taka á þeirri augljósu áhættu sem fylgdi viðskiptum Barclays bankans, leyfði hann ákveðinni lensku að þróast, sem setti hagsmuni bankans framar hagsmunum viðskiptavina hans sem skaðaði orðspor og trúverðugleika breska fjármálakerfisins,“ hefur Business Insider eftir Philippou.