Ríkisstjórnin hefur ákveðið að herða sóttvarnaráðstafanir innanlands talsvert, samkvæmt því sem fram kom í máli ráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. Börum og spilasölum verður gert að loka, einungis 10 manns mega almennt koma saman og ekki verður lengur hægt að bjóða fleiri gesti velkomna á viðburði gegn því að þeir fari í hraðpróf. Áfram mega þó 50 manns sækja sviðslistaviðburði. Skólastarf verður óbreytt á öllum skólastigum.
Samfara þessum hertu aðgerðum, sem taka gildi á miðnætti og verða í gildi til 2. febrúar, stendur til að ráðast í frekari efnahagsaðgerðir til að bæta rekstraraðilum upp tjón sem hlýst af sóttvarnaráðstöfunum. Lokunarstyrkir verða til dæmis endurvaktir fyrir þá sem þurfa að loka og til stendur að leggja fram frumvarp um að gjalddögum á sköttum hjá fyrirtækjum í veitingageiranum verði frestað.
„Óhjákvæmilegt“ og full samstaða í stjórninni
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við fréttamenn fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu að það væri óhjákvæmilegt að grípa til þessara herðinga. Hún sagði að staðan væri gríðarlega þung inni á Landspítala og víðar í heilbrigðiskerfinu. Full samstaða væri í ríkisstjórninni um að herða aðgerðir á þessum tímapunkti.
Fram kom í máli Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra að mönnun yrði styrkt á Landspítalanum, en nánar má lesa um það hér í tilkynningu ráðuneytisins. Willum sagði að allt samfélagið myndi þurfa að ganga í takt og draga úr samgangi næstu tvær vikur til að draga úr álaginu á spítalann. Hann sagði að búið væri að meta breyttar reglur með hliðsjón af lögmæti, tilefni og nauðsyn, en að þær væru þó enn í smíðum í heilbrigðisráðuneytinu.
Sundlaugar- og líkamsræktarstöðvar verða áfram opnar eins og verið hefur, og heimilt að taka við 50 prósent af leyfilegum heildargestafjölda. Sömu reglur verða sömuleiðis áfram í gildi hvað varðar veitingastaði, en þar hafa tuttugu viðskiptavinir mátt vera í sama sóttvarnarhólfi. Svo verður áfram.
Einungis eru þrír dagar síðan ríkisstjórnin tók ákvörðun um að halda sóttvarnaráðstöfunum óbreyttum í þrjár vikur í viðbót, eða til 2. febrúar. Þær reglur fólu í sér að í mesta lagi 20 manns mættu koma saman, með undantekningu varðandi 50 gesti á sitjandi viðburðum og 200 gesti með neikvætt hraðpróf.
Megininntak reglna með þeim breytingum sem verða á miðnætti
- Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
- Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
- Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
- Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
- Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
- Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
- Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.