Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar hefur beðið Jón Steindór Valdimarsson þingmann flokksins afsökunar fyrir orð sem hann lét falla í samtali við mbl.is í vikunni.
Hann sagði í viðtalinu að um hannaða atburðarás hefði verið að ræða þegar Jón Steindór, þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi, hefði verið færður úr fyrra sæti sínu sem væri líklegt þingsæti, yfir í ólíklegt sæti í Reykjavík norður.
Jón Steindór brást við þessum orðum Benedikts á Facebook í gærkvöldi en þar sagði hann að það hefði hryggt hann meira en orð fá lýst að „Benedikt Jóhannesson, sem ég hef talið góðan félaga og vin, hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista“.
„Jón Steindór er drengur góður“
Benedikt hefur nú beðið Jón Steindór afsökunar, eins og fyrr segir, en hann greinir frá því í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Í samtali við mbl.is fyrr í vikunni nefndi ég Jón Steindór Valdimarsson og færslu hans á lista Viðreisnar, úr Suðvesturkjördæmi í Reykjavík Norður. Ummæli mín voru án alls samráðs við Jón og í óþökk hans.
Jón Steindór er drengur góður og við höfum lengi barist fyrir sama málstað. Ég hef beðið hann afsökunar persónulega á ummælum mínum um hann og geri það hér með einnig opinberlega,“ skrifar hann.
Í samtali við mbl.is fyrr í vikunni nefndi ég Jón Steindór Valdimarsson og færslu hans á lista Viðreisnar, úr...
Posted by Benedikt Jóhannesson on Thursday, June 24, 2021