Frumvarp um losun gjaldeyrishafta verður vonandi lagt fram í næstu viku, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við RÚV. Þá segir hann ljóst að Alþingi verði að funda „eitthvað inn í sumarið.“
RÚV spurði Bjarna fyrir ríkisstjórnarfund í morgun um málið. Hann sagðist ekki vera að leggja frumvarpið fyrir ríkisstjórnina á fundinum í dag. Þá var hann spurður hvenær það yrði lagt fram og svaraði „vonandi í næstu viku, ég stefni að því.“
Hann segir að málið þurfi að komast inn á þetta þing. „Ég trúi því að því verði vel tekið þar eða það fái forgangsmeðferð og við getum verið sammála um að þetta er það stórt og mikilvægt mál að það skipti öllu að klára vinnu við það.“ Bjarni segir að hann sjái ekkert annað í kortunum en að það þurfi að framlengja þingstörfin, enda örfáir dagar eftir af þinginu samkvæmt starfsáætlun.
Hann var einnig spurður um viðhorf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur sagt að kjaradeilur og staðan á vinnumarkaði muni seinka losun hafta. „Það sem ég skil í orðum gjaldeyrissjóðsins um þetta er að ef niðurstaðan í kjaraviðræðum verður til þess að hér kemur aukin verðbólga, vextir þurfa að hækka og þrýstingur kemur á gengi krónunnar, þá verður erfiðara fyrir okkur í framhaldinu að losa höft af innanlandsmarkaðnum. Að hleypa heimilunum, atvinnustarfseminni og lífeyrissjóðunum aftur í frjáls gjaldeyrisviðskipti. Það verður erfiðara ef við höfum áður skapað ástand sem setur þrýsting á krónuna.“