Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, segir að Ísland hafi aldrei staðið betur í efnahagslegu tilliti og að lengsta samfellda hagvaxtarskeið í sögu landsins sé í kortunum. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna á vefsíðunni eyjan.is, en þar fer hann um víðan völl og tjáir sig meðal annars um stöðuna á vinnumarkaði. Hann segir harðar vinnudeilur og verkföll sem við blasa, ef ekki næst að semja, vera eins og „óverðský“, en vonar að það náist að leysa úr stöðunni með samningum, áður en komið verður í óefni. Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar hafi sjaldan eða aldrei staðið betur, en ekki sé sjálfgefið að þessar góður horfur haldist til framtíðar litið.
„Ég er þeirrar skoðunar að í dag séu Íslendingar í sterkustu stöðu sem við höfum nokkru sinni verið í, séð frá efnahagslegu sjónarmiði,“ segir Bjarni í viðtalinu, og ítrekar síðan að hann sé ekki aðeins að tala um eftir hrun fjármálakerfisins, haustið 2008, heldur alveg frá upphafi. „Góðærisárin fyrir hrun voru byggð á gríðarlega miklum viðskiptahalla, það hlaut að þurfa að koma leiðrétting út af því. Annað hvort í gegnum gengið eða með öðrum hætti, sem að það gerði. En ef við berum okkur saman við þann tíma í dag, þá erum við í fyrsta lagi með hærri landsframleiðslu, meiri kaupmátt og við erum með jöfnuð í viðskiptum við útlönd og undirstöðuatvinnugreinarnar, þær standa allar betur en þær gerðu þá,“ segir Bjarni.
Hann segist enn fremur sjá það fyrir sér, að ríkið muni selja um 60 prósent hlutafjár í Landsbankanum. „Ég sé það fyrir mér að Landsbankinn verði um það bil í 40 prósenta eigu ríkisins. Að öðru leyti verði bankinn í dreifðu eignarhaldi. Bankinn verði skráður á markað og ríkið noti söluandvirði hlutabréfanna til þess að greiða niður skuldir sem meðal annars var stofnað til til þess að endurfjármagna bankann á sínum tíma. Með því getum við á sama tíma stórlækkað vaxtakostnað ríkisins, skráð stórt og mikilvægt fjármálafyrirtæki og verið ráðandi hluthafi í því áfram,“ segir Bjarni.