Noregur gengur nú í gegnum efnahagslegan titring vegna breytinga í heimsbúskapnum sem hafa mikil áhrif á gang mála í Noregi. Nærtækast er að nefna verðfall á olíu sem hefur leitt til töluverðrar þrenginga í olíugeiranum norska, einkum iðnaði sem þjónustar olíuframleiðslu og flutning.
Samkvæmt fréttum norska viðskiptafjölmiðilsins Dagens Næringsliv óttast fjárfestar í Noregi að olíuverðið geti lækkað niður í 30 Bandaríkjadali á fatið á næsta ári en það er nú í kringum 50 dali. Fyrir ári síðan var það 110 Bandaríkjadalir og því hefur verðsveiflan niður á við verið afar hröð, með slæmum afleiðingum fyrir Noreg.
Mest hefur niðursveiflan verið á svæðum þar sem olíugeirinn er umsvifamestur, þar á meðal í Rogalandi þar sem Stavanger er stærsta þjónustusvæðið. Þar hefur orðið töluverður samdráttur að undanförnu og fasteignaverð hefur lækkað meira þar en annars staðar í landinu, þar sem verð hefur haldið áfram að hækka. Raunverð fasteigna hækkaði um 6,8 prósent í fyrra yfir landið allt.
Það sem fjárfestar óttast nú mest er að niðursveifla sé framundan í Kína sem leiði til minnkandi eftirspurnar eftir nær öllum hrávörum, þar sem Kína hefur dregið vagninn í hagvexti heimsbúskaparins undanfarin ár. Noregur er mikið hrávöruland og á mikið undir útflutningi á olíu, áli, raforku og matvælum, ekki síst sjávarafurðum. Mikil niðursveifla í Kína gæti leitt til vandamála í Noregi þess vegna.