Boðað hefur verið til mótmæla á morgun, föstudag, klukkan tvö þar sem þess er krafist að Íslandsbankasölunni verði rift, stjórn Bankasýslunnar víki og að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fari úr embætti.
Á dagskrá mótmælanna kemur fram að Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata og Davíð Þór Jónsson prestur muni taka til máls.
Þetta er ekki fyrstu mótmælin sem haldin hafa verið vegna málsins en um síðastliðna helgi var sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka til fagfjárfesta einnig mótmælt á Austurvelli. Mótmælendur fóru fram á að ríkisstjórnin í heild sinni segði af sér.
Samkvæmt Vísi var nokkur fjöldi fólks saman kominn en skipuleggjendur skutu á að um 600 manns hefðu verið viðstaddir mótmælin. Ræður voru fluttar til að mótmæla því að „almannaeigur séu seldar á afslætti gegn vilja þjóðarinnar“.
Framsögumenn síðustu helgi voru Þorvaldur Gylfason prófessor, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Ásta Lóa Þórsdóttir þingmaður Flokks fólksins og Gunnar Smári Egilsson úr Sósíalistaflokki Íslands.
Margir hafa selt sig niður að einhverju eða öllu leyti
Mikil ólga hefur verið í samfélaginu eftir að ríkið seldi 22,5 prósenta hlutur í Íslandsbanka með 2,25 milljarða króna afslætti í mars síðastliðnum.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að alls væru 132 þeirra 207 fjárfesta sem fengu úthlutað hlutum í Íslandsbanka í nýlegu lokuðu útboði ekki lengur skráðir fyrir sama hlut og þeir fengu úthlutað.
Margir þeirra hefðu selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Samanlagt keyptu þessir aðilar fyrir um 18,7 milljarða króna í útboðinu þann 22. mars síðastliðinn en útboðsgengið var 117 krónur á hlut sem var 4,1 prósent lægra en markaðsgengi þess dags.
Heimildarmenn Kjarnans innan bankakerfisins segja að í flestum tilvikum séu viðkomandi einfaldlega búnir að selja hlutinn og leysa út hagnaðinn af því að hafa fengið að taka þátt í útboðinu með afslætti. Í einhverjum tilvikum hafi verið framvirkir samningar við þá og viðkomandi fengið lán fyrir kaupunum sem hafi svo verið gert upp strax á fyrstu dögum eftir að hægt var að selja að nýju. Það sem eftir sat lenti svo í vasa viðkomandi fagfjárfestis sem hreinn hagnaður.
Í öðrum tilvikum hafi hluturinn þó verið fluttur á vörslureikninga í eignarstýringu viðkomandi. Ómögulegt er að sjá af hluthafalistanum hverjir færðu bréfin sín með þeim hætti og hverjir seldu. Velta með bréf í Íslandsbanka, þar sem sem þau eru keypt og seld, daganna eftir að útboðinu lauk var margföld það sem hún var að meðaltali á dag frá áramótum og fram að útboði. frá 23. mars og til 11. apríl höfðu um 152,6 milljónir hluta skipt um eigendur. Það er um þriðjungur þess sem selt var í útboðinu.