Seðlabanki Bandaríkjanna, sem hefur verið með stýrivexti við 0 prósent frá því haustið 2008, er farinn að boða hækkun á stýrivöxtum um mitt ár, að því er sérfræðingar á markaði, sem breska ríkisútvarpið BBC vitnar til, telja. Ástæðan fyrir þessu mati sérfræðingana er sú að orðalag í tilkynningum frá bankanum hefur breyst og stendur nú eftir að bankinn muni hefja vaxtahækkunarferli þegar frekari bati hefur náðst á vinnumarkaði.
Eftir að tilkynning bankans kom út hækkaði gengi hlutabréfa á markaði í Bandaríkjunum um eitt prósent að meðaltali, og var hækkunin rakin til þessa breytta orðalags. Jafnframt segir í tilkynningunni að ekki liggi fyrir ennþá, hvenær vaxtahækkunarferlið muni hefjast, en flest bendir til þess að það gerist um mitt ár, þar sem batinn á vinnumarkaði hefur verið viðvarandi og stöðugur. Í febrúar urðu til 295 þúsund ný störf í bandaríska hagkerfinu og hefur atvinnuleysi verið að minnka, jafnt og þétt, og mælist nú 5,7 prósent.
Þessi breytta stefna þykir til marks um að efnahagsbatinn í Bandaríkjunum sé meiri en reiknað hafði verið með, og erfiðleikar, sem rekja má til fjármálakreppunnar sem hófst 2007, séu nú að baki.