„Ef vel tekst til með takmörkunum á landamærum að lágmarka flutning veirunnar hingað til lands frá útlöndum þá tel ég allar forsendur vera fyrir hendi til að slaka frekar á takmörkunum innanlands á næstu vikum og mánuðum,“ skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalækni í sínu nýjasta minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Í því leggur hann þegar til nokkra afléttingu aðgerða, m.a. klukkustundar lengri opnunartíma veitingastaða og tilslakanir hvað varðar fjölda takmarkanir. Allt þetta og fleira er komið inn í nýja reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar – þessa sem uppfærð hefur verið reglulega síðasta eina og hálfa árið – er tekur gildi á miðnætti.
Ætla má að engri tillögu Þórólfs að tilslökun nú verði fagnað meira en þeirri er snýr að grunn – og framhaldsskólanemum. Samkvæmt henni leyfist skólunum á ný að halda samkomur fyrir nemendur, fyrir allt að 1.500 gesti, að því gefnu að þeir framvísi neikvæðu hraðgreiningarprófi sem ekki má vera eldra en 48 klukkustunda gamalt. Þannig að frá og með morgundeginum má halda böll í framhaldsskólum á ný og árshátíðir í grunnskólum, svo dæmi séu tekin. Fá ef nokkur slík böll hafa farið fram frá því snemma í faraldrinum. „Slíkar skemmtanir eru undanþegnar nálægðartakmörkun og grímuskyldu,“ segir í reglugerð ráðuneytisins um þennan lið. „ Skrá skal alla gesti með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skrána skal varðveita í tvær vikur og henni eytt að þeim tíma liðnum.“
Í minnisblaði Þórólfs fer hann yfir þróun faraldursins síðustu vikur. „Í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst í lok júní 2021 af afléttingum allrar takmarkana innanlands og breytinga á skimunum á landamærum, tel ég rétt að fara hægt í tilslakanir á næstunni, sérstaklega á landamærum. Þau alvarlegu veikindi sem hlutust af þessum tilslökunum gengu nærri þolmörkum Landspítala.“
Frá 30. júlí þegar núverandi bylgja náði hámarki hefur faraldurinn verið á hægri niðurleið, skrifar Þórólfur, og að síðustu daga hafi fáir þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Ástandið á Landspítalanum vegna COVID-19 sé ekki eins alvarlegt nú og fyrr í þessari bylgju. „Ástæðan fyrir batnandi ástandi eru margar og þær helstar, að takmarkanir innanlands hafa verið viðhafðar, beitt hefur verið smitrakningu, sóttkví og einangrun eins og áður, hert hefur verið á skimunum á landamærunum og auk þess hefur gengið vel að bólusetja börn og unglinga og viðkvæmir hópar hafa fengið þriðja skammt bóluefnis.“
100 manns þurft að leggjast inn
Frá 1. júlí hafa um 4.700 manns greinst með COVID-19 hér á landi og um 2,1 prósent þeirra (100 manns) þurft á sjúkrahúsvist að halda. Átján hafa lagst inn á gjörgæsludeild (0,4 prósent), níu þurft aðstoð öndunarvéla (0,2 prósent) og þrír látist (0,1 prósent). Smitin greindust bæði hjá óbólusettum og fullbólusettum einstaklingum en líkur á smiti hjá óbólusettum eru um þrefalt meiri og líkur á innlögnum á sjúkrahús um fimmfalt hærri, skrifar Þórólfur. Um 60 prósent þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús eru hins vegar full bólusettir. „Þó er því ljóst að góð þátttaka í bólusetningum hér á landi hefur bæði komið í veg fyrir útbreiddara smit og alvarlegri afleiðingar COVID-19.“