Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að öll aðildarríkin uppfæri reglur sínar um ferðalög innan sambandsins. Stjórnin mælir m.a. með að bólusetningarvottorð gildi aðeins í níu mánuði í stað 12 hingað til.
Í fréttatilkynningu sem gefin var út í síðustu viku er bent á tilmæli Sóttvarnastofnunar Evrópu um örvunarskammta sem gefa megi fullorðnum sex mánuðum eftir að fullri bólusetningu var náð og hvetur framkvæmdastjórnin aðildarríkin til að taka „nauðsynleg skref“ til að það fólk sem er að nálgast níu mánuði frá fullri bólusetningu hafi aðgang að örvunarskammti. Við hann sé gildistími vottorðsins framlengdur.
Nokkur Evrópulönd hafa undanfarna daga og vikur ákveðið að bólusetningarvottorð dugi aðeins í níu mánuði. Austurríki er eitt þeirra en þar var nýverið gripið til útgöngubanns vegna uppsveiflu í faraldrinum.
Framkvæmdastjórnin hvatti ríki ESB einnig til að setja ekki hertar takmarkanir á ferðalög fólk sem væri með gilt bólusetningarskírteini. Hins vegar hefur hið nýja afbrigði veirunnar, Ómíkron, snarlega breytt nálgun margra ríkja í þessum efnum og ákvarðanir eru teknar hratt. Þótt raðgreining á veiruafbrigðinu sýni að það hafi stökkbreytingar sem gætu fræðilega gert smithæfni þess meiri er enn ekkert staðfest í þeim efnum.
Innan Evrópusambandsins er faraldurinn nú í hvað mestri uppsveiflu í Póllandi, Hollandi, Tékklandi og Belgíu. Einnig er staðan að versna á Spáni, Portúgal og í Frakklandi – þeim þremur löndum sem hafa þótt hvað öruggust til ferðalaga síðustu vikur og mánuði.