Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag að ákveðið hefði verið, að tillögu sóttvarnalæknis, að hefja skimun bólusettra ferðamanna sem eru með tengsl hér á landi á landamærunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði þetta til í minnisblaði fyrir tveimur vikum. Sú tillaga hefur verið útfærð frekar að sögn Katrínar og mun skylduskimun ná til allra þeirra sem eru með tengsl á Íslandi, ekki aðeins þeirra sem hafa íslenska kennitölu, heldur líka þeirra „sem hyggja hér á langvarandi dvöl eða ætla að sækja hér vinnu,“ sagði Katrín. Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins um ákvörðunina eru taldir upp fjórir hópar sem falla undir þá skilgreiningu að hafa tengsl við Ísland:
- Íslenskir ríkisborgarar
- Einstaklingar búsettir á Íslandi
- Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
- Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi
Ákvörðunin felur í sér að þessir hópir verður skyldaður til að mæta í COVID-próf innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Þeir þurfa hins vegar ekki að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma.
Aðgerðin mun ekki taka gildi fyrr en 16. ágúst eða eftir tíu daga.
Engar ákvarðanir voru teknar um breyttar aðgerðir innanlands á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði eftir fundinn að ríkisstjórnin hefði rætt samkomutakmarkanir innanlands „með almennum hætti“. Núverandi takmarkanir væru í gildi til 13. ágúst „og við þurfum þegar þar að kemur að hafa skýra sýn á hvað tekur við næst,“ sagði Svandís. „Við sjáum það á öllum gögnum sem við erum með núna að það sem er mikilvægast að ráðast í hér og nú er að styrkja heilbrigðiskerfið okkar. Að styrkja þetta bráðaviðbragð, þennan möguleika Landspítalans að standa undir þessu verkefni, að þétta varnir á landamærum og að bæta bólusetningarstöðuna.“
Katrín sagði að þessi þrjú atriði; betri vörn á landamærum, styrking heilbrigðiskerfisins og bætt bólusetning, væru þau sem hefðu komið fram „hjá öllum þessum sérfræðingum sem við höfum verið að funda með í vikunni“.
Minnisblað með aðgerðum
Heilbrigðisráðherra kynnti á fundinum tillögur sínar um hvernig tryggja megi að Landspítalinn „geti staðið undir sínu hlutverki í þessari bylgju,“ eins og bæði Katrín og Svandís orðuðu það í viðtölum eftir fundinn.
Svandís sagðist hafa lagt fyrir ríkisstjórnarfundinn minnisblað með nokkrum aðgerðum til að styðja við Landspítalann. „Það eru aðgerðir sem bæði lúta beint að starfsemi Landspítalans en ekki síður í landslagi heilbrigðisþjónustunnar í heild.“ Tillögurnar lúti m.a. að því að styðja við öldrunarþjónustuna svo hraða megi útskriftum af Landspítalanum. Meðal tillagna var einnig að setja upp sérstaka COVID-einingu á Landspítalanum til lengri tíma.
27 þúsund manns sem fengið hafa boð í bólusetningu hafa ekki þegið það. Á því kunna að sögn Katrínar að vera ýmsar skýringar, m.a. heilsufarslegar. „En við viljum ná betur til þessa hóps, fá hann í bólusetningu.“
Örvunarbólusetning fólk sem fékk Janssen-bóluefnið er hafin en að auki sagði Katrín að tekin hefði verið ákvörðun um að hefja örvunarbólusetningu hjá öldruðum og fólki með undirliggjandi sjúkdóma. „Þetta verður ráðist í í þessum mánuði.“
90 prósent greindra með íslenska kennitölu
Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins um ákvörðunina segir að samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis hafi um 90 prósent þeirra einstaklinga sem greinst hafa með COVID-19 frá 1. júlí íslenska kennitölu. „Mikilvægt er að tryggja varnir gegn nýjum afbrigðum veirunnar og því er þessi ákvörðun tekin. Áfram verður gerð krafa um framvísun neikvæðs COVID-prófs á landamærum en tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili hefur reynst vel í faraldrinum.“