Ríkisstjórnin hefur ákveðið að frá og með næsta þriðjudegi þurfi allir sem til landsins koma, bólusettir jafnt sem óbólusettir, að framvísa neikvæðu COVID-prófi sem má að hámarki vera 72 klukkustunda gamalt er þeir halda af stað til Íslands.
Einnig verður nú mælst til þess að þeir sem eru búsettir á Íslandi eða hafa tengslanet hér á landi fari í skimun við komuna til landsins, en það verður ekki skylda.
Þetta kynnti ríkisstjórnin eftir fund sinn sem fram fór í hádeginu í dag, en stjórnin kom saman til þess að ræða tillögur sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærum til þess að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.
Á vef stjórnarráðsins segir að bólusettir einstaklingar megi framvísa bæði niðurstöðum úr PCR-prófi eða svokölluðum antigen-hraðprófum áður en haldið er af stað til Íslands.
Áfram verður gerð krafa um að óbólusettir framvísi niðurstöðu úr PCR-prófi áður en þeir halda til Íslands og áfram verður gerð krafa um að þeir undirgangist tvær skimanir með fimm daga sóttkví á milli skimana eftir komuna til landsins. Börn fædd árið 2005 og síðar verða áfram undanþegin öllum takmörkunum á landamærum.
Ekki mögulegt að skylda alla með íslenska kennitölu í skimun
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði það til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að ráðist yrði í skimun allra þeirra sem til landsins koma og eru með íslenska kennitölu, óháð því hvort þeir væru bólusettir eður ei. Þetta lagði hann til þar sem reynslan sýnir að þeir sem eru búsettir hérlendis eða með tengslanet hér á landi eru líklegri til að smita út frá sér en ferðamenn.
Á þetta var ekki fallist, en samkvæmt frétt mbl.is var það sökum þess að ríkisstjórnin taldi það stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að beita þá sem eru með íslenska kennitölu strangari sóttvarnaráðstöfunum en aðra sem til landsins koma.
Þetta virðist hafa verið viðbúin niðurstaða, en í minnisblaði Þórólfs segir að ef það reynist „ekki framkvæmanlegt“ að taka sýni á landamærum frá þessum hópi þá verði þessir einstaklingar hvattir til að fara í sýnatöku innanlands eins fljótt og auðið er eftir heimkomuna.
Stjórnvöld þurfi að vera „tilbúin til að grípa til ráðstafana“
Af minnisblaði Þórólfs má lesa að hann hefur nokkrar áhyggjur af stöðu mála með tilliti til útbreiðslu COVID-19 hér innanlands, jafnvel þótt bólusetningar séu hér útbreiddari en nær alstaðar.
Hann segir að stjórnvöld þurfi „að vera tilbúin til að grípa til ráðstafana ef útbreiðsla faraldursins eykst til muna eða ef einstaklingar fara að veikjast alvarlega“ og að mikilvægt sé að styðjast við reynslu af fyrri aðgerðum ef til þess kemur.