Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að það verði áfram verslun ÁTVR í miðborg Reykjavíkur, í auðveldu göngufæri – og jafnvel tvær. Þetta segir hann að hafi komið fram á fundi hans með Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR.
Borgarstjóri ræddi málið í nokkrum færslum á Twitter í morgun og rakti þar umræðuna um sem skapaðist eftir að ÁTVR auglýsti eftir nýju húsnæði á miðborgarsvæðinu og kynnti síðan að staðsetning á Grandanum, nánar tiltekið við Fiskislóð 10, hefði verið metin álitlegust.
Auglýst eftir 1-2 nýjum stöðum í miðborginni ef Austurstræti yrði lokað
„Fjölmargir bentu á að það þyrfti verslun í miðborginni áfram ef þetta yrði,“ skrifar Dagur og bætir svo við að hann og forstjóri ÁTVR hafi handsalað „að búðin í Austurstræti myndi ekki loka þrátt fyrir að samningar næðust á Grandanum“ og jafnframt að forstjóri ÁTVR hefði upplýst að ef Austurstrætinu yrði lokað „yrði auglýst eftir 1-2 vel staðsettum en minni verslunum á miðborgarsvæðinu til að koma í staðinn.“
„Þetta finnst mér góð niðurstaða og vel hægt að sjá fyrir sér tvær minni verslanir, önnur á svæðinu Lækjartorg/Hafnartorg og hin á Hlemmsvæðinu sem myndi koma til móts við þann stóra fjölda fólks sem býr og vinnur á þessu svæði eða er þar sem ferðamenn. Flott, ÁTVR,“ skrifar borgarstjóri og bætir við að hann hafi átt góða reynslu af samskiptum við ÁTVR í þessum málum.
Það verður áfram verslun ÁTVR í miðborginni - í auðveldu göngufæri, jafnvel tvær. Þetta varð ljóst á fundi mínum með forstjóra ÁTRV. Fer yfir þessi mál og fleiri á opnum íbúafundi í miðborginni í kvöld í ráðhúsinu. En sjálfsagt að rekja aðeins aðdragandann og umræðuna. 1/
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) April 6, 2022
„Átti á sínum tíma fund eftir að Vínbúðin flutti úr Grafarvogi sem lauk með þeirri niðurstöðu að ÁTVR setti upp búð í Spönginni, við hliðina á nýja bókasafninu okkar sem hefur hvoru tveggja styrkt Spöngina,“ segir Dagur, á Twitter.
Greint var frá því undir lok októbermánaðar að ÁTVR leitaði eftir nýju verslunarplássi undir nýja verslun í miðborg Reykjavíkur og sæi fyrir sér að hætta mögulega rekstri Vínbúðarinnar í Austurstræti. Fyrirætlanir fyrirtækisins, og skilyrði þess um næg bílastæði fyrir viðskiptavini, vöktu blendin viðbrögð.
Var það ekki í fyrsta sinn sem ÁTVR fékk á sig gagnrýni fyrir að hafa uppi áform um færa verslanir sínar á staði þar sem handhægara er að koma á eigin bíl en gangandi eða hjólandi.