Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, eiga von á sekt frá lögreglu fyrir að hafa verið viðstaddir samkvæmi á vegum yfirvalda þegar útgöngubann vegna COVID-19 var í gildi.
Forsætisráðuneytið staðfestir að Johnson og Sunak hafi verið tilkynnt að þeir eigi yfir höfði sér sekt. Fyrstu 20 sektirnar voru gefnar út í byrjun mánaðarins en þær telja nú 50 talsins. Johnson var búinn að gefa það út að hann hyggðist upplýsa um það yrði hann sektaður.
Talsmaður forsætisráðuneytisins segir í samtali við BBC að ráðherrarnir hafi ekki verið upplýstir hvaða samkvæmi um ræðir þar sem brot áttu sér stað.
Breska lögreglan hefur rannsakað tólf samkvæmi á vegum breskra yfirvalda á þeim tíma sem strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.
Starfsfólk Downingstrætis 10 stóð fyrir tveimur samkvæmum kvöldið áður en jarðarför Filippusar prins fór fram. Tveggja vikna þjóðarsorg hafði verið lýst yfir í Bretlandi vegna fráfalls drottningarmannsins.
Boris Johnson forsætisráðherra var í hvorugu samkvæminu en hefur beðist afsökunar á að þau hafi farið fram. Hann var hins vegar staddur í um þrjátíu manna veislu í Downingstræti rúmum mánuði síðar þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi. Veisluhöldin fóru fram í garði Downingstræti og var hundrað boðsgestum meðal annars bent á að „hafa eigið áfengi meðferðis til að njóta góða veðursins eins best væri á kosið“. Um 30 manns þekktust boðið, þar á meðal Johnson sjálfur og Carrie Johnson, eiginkona hans. Á því hefur hann einnig beðist afsökunar, sem og eigin afmælisveislu sem kona hans skipulagði í íbúð þeirra í Downingstræti 19. júní 2020 og kveðjuhófi í nóvember sama ár þegar sérstakur ráðgjafi forsætisráðherra lét af störfum.
Leiðtogi Verkamannaflokksins segir ráðherrana þurfa að víkja
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir Johnson og Sunak verða að segja af sér vegna Partygate-hneykslisins. „Boris Johnson og Rishi Sunak hafa brotið lögin ítrekað og logið að breskum almenningi,“ segir Starmer, sem telur þá algjörlega óhæfa til að starfa í ríkisstjórn. „Bretland á betra skilið.“
Tólf samkomur eru til rannsóknar hjá lögreglu en í skýrslu Gray er fjallað um að minnsta kosti 16. Gray segir að henni hafi verið settar miklar skorður vegna lögreglurannsóknarinnar og því er enn nokkuð í að endanleg og „þýðingarmikil“ skýrsla verði gefin út. Johnson fullyrðir að endanleg skýrsla Gray um „Partygate“ verði gerð opinber.
Ekki liggur fyrir hversu há sektin sem Johnson og Sunak fá en frá því að henni verður framvísað hafa þeir 28 til að greiða sektina. Ákveði þeir að mótmæla sektinni mun lögregla taka málið til endurskoðunar og í kjölfarið annað hvort draga sektina til baka eða láta reyna á lögmæti hennar fyrir dómstólum.