Í morgun fóru börn í Englandi í skólann á ný eftir margra vikna fjarnám. Í Þýskalandi var hömlum aflétt á ýmissi þjónustu. En í Finnlandi, Ungverjalandi og á ákveðnum svæðum á Ítalíu voru hertar aðgerðir kynntar til sögunnar.
Bresk stjórnvöld hafa kynnt áætlun um hvernig hömlum verður smám saman aflétt næstu vikurnar. Stór áfangi varð í dag þegar um tvær milljónir grunnskólabarna máttu aftur mæta í skólann. Tvær vikur eru síðan þau voru send heim og í fjarnám. Bretar hafa í þrígang frá upphafi faraldursins gripið til mjög harðra aðgerða.
Nú hafa um 22 milljónir manna fengið að minnsta kosti fyrri skammtinn af bóluefni. Frá og með 29. mars mega allt að sex manns koma saman utandyra. Þann 12. apríl er svo stefnt að því að opna dyr bara og veitingastaða.
Hæg aflétting er einnig að eiga sér stað í Þýskalandi. Í morgun máttu bókabúðir, blómabúðir og ökuskólar, svo dæmi séu tekin, aftur fara að taka við viðskiptavinum. Aðeins um 5 prósent Þjóðverja hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnisins.
Í dag tóku hertar aðgerðir gildi á þremur svæðum á Ítalíu. Á svæðinu í kringum Napolí er nú „rauður“ litakóði í gildi sem þýðir að mikil hætta á útbreiðslu er til staðar. Því þarf að loka börum, veitingahúsum, skólum og dagheimilum, svo dæmi séu tekin.
Fyrir helgi tilkynnti ítalski heilbrigðisráðherrann að smittalan (R) væri komin yfir einn í fyrsta skipti í sjö vikur. Hann sagðist því óttast að þriðja bylgjan væri yfirvofandi.
Finnar hafa séð sömu þróun og frá og með deginum í dag eru því barir og veitingastaðir lokaðir. Sömu sögu er að segja frá Ungverjalandi og þar stendur til að loka skólum og verslunum vegna fjölgunar smita.
Á svæði í Norður-Frakklandi hefur einnig verið gripið til staðbundinna og harðari aðgerða vegna fjölgunar smita. Þar hefur breska afbrigði veirunnar stungið sér niður af krafti.