Strandríki Bandaríkjanna við Mexíkóflóa hafa komist að samkomulagi við olíufélagið BP um að breska olíufélagið borgi 18,7 milljarða bandaríkjadala á næstu 18 árum í skaðabætur fyrir Deepwater Horizon slysið árið 2010. Þetta var tilkynnt í dag í New Orleans í Luoisiana.
Skaðabæturnar jafngilda um það bil 2.479 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi en til samanburðar var verg landsframleiðsla Íslands árið 2014 rúmlega 1.993 milljarðar króna.
Olíumengunin á Mexíkóflóa, í kjölfar þess að Deepwater Horizon-olíuborpallurinn sprakk í loft upp, er sú allra mesta í sögu olíuvinnslu úr setlögum undir sjávarmáli. Talið er að umfang mengunarinnar hafi verið um það bil 8 til 31 prósent meira en í Ixtoc I-slysinu 1979, en það er jafnan talið næst stærsta olíuslys sögunnar.
Borpallurinn sem var í eigu BP sökk eftir að sprenging varð um borð með þeim afleiðingum að ellefu starfsmenn fórust og borholan spúði olíu upp úr hafsbotninum í 87 daga áður en henni var lokað um mitt sumar 2010. Stjórnvöld í Bandaríkjunum telja að ígildi 4,9 milljón olíutunna hafi farið í sjóinn, eða því sem nemur innflutningi Íslands af olíu allt árið 2011. Enn er talið að olía leki fram hjá „tappanum“ sem settur var til að stöðva flæðið úr hafsbotninum.
BP greiðir nærri 50 milljarða dala
Á þeim fimm árum sem liðin eru síðan slysið varð hefur BP eytt um 30 milljörðum bandaríkjadala í hreinsun á slysstað og miskabætur vegna tjóns sem hlaust af slysinu. Fyrirtækið hefur einnig viðurkennt sekt sína fyrir dómstólum og reist sokkinn borpallinn af hafsbotninum. BP hefur þó vísað á verktakafyrirtækin Halliburton og Transocean sem ráku borpallinn og sagt þau bera jafn mikla ábyrgð á slysinu.
Skaðabæturnar sem BP mun borga á næstu 18 árum er niðurstaða málshöfðunar strandríkjanna Alabama, Flórída, Louisiana, Mississippi og Texas auk alríkisstjórnarinnar á hendur BP. Síðastliðið haust sagði New York Times frá því að upphæðin gæti orðið allt að 18 milljarðar dala. BP hafði aðeins lagt til hliðar 3,5 milljarða til að borga sig frá lögsókninni.
„Þessi niðurstaða setur tóninn,“ lét Robert Bentley, ríkisstjóri í Alabama, hafa eftir sér þegar samkomulagið var kynnt. „Upphæðin er til þess að koma til móts við ríkin vegna þess tjóns sem orðið hefur, bæði hvað varðar umhverfið og efnahaginn.“
Magnið af olíu sem fór í sjóinn jafngildir því sem Íslendingar flytja inn af olíu á ári, eða um 4,9 milljón tunnur. (Mynd: EPA)