Bresk stjórnvöld hafa selt 5,4 prósent hlut í Royal Bank of Scotland (RBS) á 2,1 milljarð punda, eða sem nemur ríflega 440 milljarða króna. Fjármunirnir verða nýttir til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs Breta, samkvæmt tilkynningu frá breska fjármálaráðuneytinu.
Ríkissjóður Bretlands lagði bankanum til 45,5 milljarða punda í fjármálakreppunni haustið 2008 og eignaðist þá ríflega 80 prósent hlut í bankanum. Gengið í viðskiptunum þá var um 500 pens á hlut, en í sölunni nú er gengið 330 pens á hlut, og því tapið umtalsvert, eða um milljarður punda miðað við 5,4 prósent hlut.
Rekstur RBS hefur gengið erfiðlega undanfarin ár og er gert ráð fyrir mikilli hagræðingu á næstu árum. Frá árinu 2008 hefur bankinn tapað um 50 milljörðum punda, og hagrætt verulega í rekstri. Gert er ráð fyrir að áframhald verði á þeirri þróun, en breska ríkið á nú 73 prósent hlut í bankanum.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að fjármálaráðuneytið stefni að því að reyna að ná öllum peningum skattgreiðenda til baka sem settir voru í bankann, en miðað við þetta verð sem fékkst fyrir hlutinn nú, er tapið umtalsvert. Vonir standa til þess að virði hlutafjár bankans muni aukast með tímanum.
UK government starts Royal Bank of Scotland sell-off http://t.co/4ylI727aih
— The Guardian (@guardian) August 3, 2015