Tom Hayes, fyrrverandi miðlari hjá UBS bankanum og Citigroup á árunum 2006 til 2010, var í dag dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir að hafa haft áhrif á vaxtakjör á markaði. Hayes, sem er 35 ára, neitaði sök og sagði yfirmenn sína hafa vitað af tilhögun viðskipta hans sem hafi miðað að því að græða sem allra mest fyrir vinnuveitanda sinn.
Ákæran á hendur Hayes var í átta liðum og var hann fundinn sekur í öllum liðum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Þetta er fyrsti dómurinn sem fellur í málum sem tengjast umfangsmiklum rannsókn á markaðsmisnotkun margra af stærstu banka heimsins, sem hafa nú þegar greitt himinháar sekir fyrir athæfi sitt og með þeim viðurkennt að hafa farið gegn lögum í starfsemi sinni. Bankastarfsmennirnir sjálfir hafa hins vegar ekki verið sóttir til saka fyrir þau brot sem samið hefur verið um, fyrr en nú.
Samkvæmt frásögn BBC hélt Hayes um höfuð sitt þegar dómurinn var kveðinn upp en hans málsvörn var eins og áður segir sú, að allir yfirmenn hans og æðstu stjórnendur bankans hafi vitað upp á hár hvað hefði gengið á og beinlínis fyrirskipað viðskiptin.