Dómsmálaráðuneytið telur að breytingar á viðmiðum um það á hvaða grundvelli flóttafólki frá Venesúela sé veitt vernd hér á landi kalli ekki nauðsynlega á lagabreytingar, heldur geti þær birst sem reglugerðarbreytingar eða tilmæli ráðuneytisins til Útlendingastofnunar.
Þetta kemur fram í svari sem ráðuneytið veitti Kjarnanum, vegna fyrirspurnar sem lögð var fram í tilefni orða Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra á þingi fyrr í þessari viku.
Ráðherra sagði þar, í orðaskiptum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins, að unnið væri að því að breyta þeim viðmiðum sem væru til staðar um veitingu verndar til íbúa Venesúela og koma í veg fyrir að Ísland væri með „umframsegul í sínu kerfi“ miðað við önnur Evrópuríki.
Orðrétt sagði ráðherra að Ísland væri „að glíma við óvenjuhátt hlutfall fólks frá Venesúela á grundvelli niðurstöðu kærunefndar útlendingamála“ og að verið væri að „bregðast við því með að reyna að breyta okkar viðmiðunum um það á hvaða grundvelli við veitum þeim vernd“.
„Ég held að það muni færa okkur til jafns við það sem gerist og gengur hjá öðrum Evrópuþjóðum og þá verði ekki Ísland með þennan umframsegul í sínu kerfi sem dregur hingað til lands,“ sagði Jón.
Búið að reyna að breyta framkvæmd – stóðst ekki að mati kærunefndar
Íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um það árið 2018 að umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela yrði veitt viðbótarvernd hér á landi, með vísan til almennra aðstæðna í ríkinu en óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda. Fjöldi venesúelskra ríkisborgara sem hingað leitar hefur aukist síðan þá, og undir lok síðasta árs tilkynnti Útlendingastofnun að breyta ætti framkvæmdinni hvað þennan hóp varðar og leggja einstaklingsbundið mat á umsóknir fólksins um vernd á Íslandi.
Í kjölfarið var mörghundruð manns frá Venesúela synjað um vernd á Íslandi með ákvörðunum Útlendingastofnunar, en í sumar komst kærunefnd útlendingamála að ekki hefði verið sýnt fram á að ástandið í Venesúela hefði lagast frá því að íslenskt stjórnvöld tóku ákvörðun um að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd hérlendis á grundvelli stöðunnar í heimaríki þeirra.
Fram kom í úrskurðinum að ástandið í landinu hefði raunar farið versnandi „og að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni hafi aukist.“ Bætt ástand í Venesúela gæti því ekki verið rökstuðningur fyrir því að synja umsækjendum um viðbótarvernd hér á landi.
Síðan þá hafa hundruð ríkisborgara Venesúela, sem Útlendingastofnun hugðist synja um vernd á grundvelli þeirrar breyttu framkvæmdar sem kynnt var undir lok síðasta árs, fengið vernd á Íslandi.
Þrátt fyrir að fyrri tilraun hafi ekki gengið upp segist dómsmálaráðuneytið telja, sem áður segir, að hægt verði að breyta framkvæmdinni í verndarmálum sem snerta ríkisborgara Venesúela með reglugerðarbreytingum eða tilmælum til Útlendingastofnunar.
Ekki í boði að fá gögn
Hvað ráðuneytið hyggst gera er þó óljóst. Kjarninn kallaði eftir því að fá afhent öll gögn sem ráðuneytið hefði í fórum sínum og tengdust undirbúningi þeirra breytinga sem ráðherra hefur boðað, en beiðninni var synjað.
Svör ráðuneytisins voru þau um væri að ræða vinnugögn sem undanþegin eru upplýsingarétti. Samkvæmt upplýsingalögum má þó veita ríkari aðgang að gögnum en því beinlínis er skylt samkvæmt lögunum. Ráðuneytið tók afstöðu til þess hvort það gæti veitt aukinn aðgang að þeim gögnum sem liggja fyrir, en taldi sér ekki fært að veita hann.