Stjórn Íslandsdeildar ICOM, alþjóðaráðs safna, brýnir fyrir bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði að kynna sér siðareglur ICOM og virða þær í hvívetna. Þetta kemur fram í ályktun frá Íslandsdeild ICOM sem stjórn deildarinnar sendi frá sér í dag. Í ályktuninni kemur fram að Hafnarborg sé viðurkennt safn samkvæmt safnalögum en í tíundu grein laganna kemur fram að skilyrði fyrir viðurkenningu safns er að safn starfi í samræmi við siðareglur ICOM.
Ástæða ályktunarinnar er sú að listaverk listamannatvíeykisins Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar að fyrirskipun bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbjartsdóttur, líkt og Kjarninn hefur fjallað um. Verkið er hluti af yfirstandandi sýningu þeirra í safninu, Töfrafundur - áratug síðar. Í ályktun Íslandsdeildar ICOM segir að í kjölfar þessa atburðar vakni áleitnar spurningar um sjálfstæði safna.
Fram kemur í ályktuninni að henni sé beint til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði sem eigenda og ábyrgðaraðila safnsins. Í siðareglum komi fram að yfirstjórn safns skuli aldrei fara fram á að starfsfólk safns geri neitt það sem talið er að stríði gegn siðareglum ICOM.
„Þá vill stjórn Íslandsdeildar ICOM árétta að forstöðumaður ber beina ábyrgð gagnvart yfirstjórn safnsins. Inngrip yfirstjórnar í starfsemi safns af því tagi sem hér hefur átt sér stað er því hvorki í samræmi við siðareglur né safnalög, og telst vera óeðlileg afskipti af stjórnun safns,“ segir í ályktuninni. Sem eigandi Hafnarborgar verði Hafnarfjarðarbær að tryggja að starfsemi safnsins endurspegli faglega ábyrgð eins og kveðið er á um í siðareglum ICOM og lögum.
Málið tekið fyrir á bæjarráðsfundi
Listaverkinu sem um ræðir var komið fyrir á gafli Hafnarborgar föstudaginn 30. mars eftir að listamennirnir Libia og Ólafur höfðu útvegað sér munnlegs leyfis fyrir uppsetningu verksins hjá þar til bærum embættismanni. Tveimur dögum síðar, að morgni sunnudags, var verkið svo fjarlægt að beiðni bæjarstjórans. Í samtali við Kjarnann sagði listamannatvíeykið það „stórfurðulegt og alvarlegt að bæjarstjóri sjái sig knúinn til að grípa inn í með þessum drastíska hætti.“
Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í síðustu viku þar sem fulltrúar minnihlutans gerðu alvarlegar athugasemdir við það sem þau kölluðu ritskoðun bæjarstjórans og lögðu það til að verkið yrði sett aftur upp svo til tafarlaust og listamennirnir beðnir afsökunar. Tillagan var felld og tillaga meirihlutans samþykkt um að tvíeykið skyldi sækja formlega um leyfi fyrir uppsetningu verksins.
Í bókun sinni á fundinum vísaði Rósa Guðbjartsdóttir því alfarið á bug að um ritskoðun væri að ræða, verkið hefði verið sett upp í leyfisleysi og þar við sæti.