Ef marka má orð bæði sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra í samtali við fjölmiðla í gær og í dag má gera ráð fyrir því að slakað verði á sóttvarnaráðstöfunum síðar í vikunni, en núgildandi reglugerð um samkomutakmarkanir rennur út á föstudag, 27. ágúst.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi í gær að þróun faraldursins innanlands væri jákvæð og að hann myndi horfa til þess er hann setti saman næsta minnisblað sitt til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, en fjöldi þeirra sem eru með virkt smit fer nú minnkandi dag frá degi og staðan á Landspítalanum er orðin betri en hún virtist vera fyrir skömmu síðan. Sjö manns eru nú á gjörgæsludeild Landspítalans.
Svandís talaði við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í dag og sagði bæði við Ríkisútvarpið og fréttastofu Stöðvar 2 að hún teldi svigrúm til staðar til þess að slaka á aðgerðum.
„Ég er sammála því,“ sagði Svandís við Stöð 2. Hún benti á að smitbylgjan virtist á undanhaldi og að tök væru að nást á stöðu mála.
Þrátt fyrir sagði hún að þolmörk Landspítalans væru ekki langt undan, en ráðist hefði verið í ýmsar aðgerðir til að styðja spítalann í því að sinna hlutverki sínu.
Hún sagði ýmis mál til skoðunar, meðal annars kröfur sem settar hafa verið fram af hálfu knattspyrnuliða um að rýmka fjöldatakmarkanir þannig að fleiri áhorfendur geti mætt á knattspyrnuleiki.
Ráðherra sagðist búast við því að minnisblað með tillögum um áframhald sóttvarnaráðstafana berist frá sóttvarnalækni ýmist síðar í dag eða í fyrramálið.