Á næstu vikum gæti farið svo að daglegar smittölur í Danmörku yrðu álíka margar og þær urðu þegar þær voru flestar í bylgju sem reið yfir í nóvember og desember í fyrra. Ráðgjafanefnd yfirvalda telur að innlögnum COVID-sýktra á sjúkrahús eigi einnig eftir að fjölga.
Uppfærð spá ráðgjafanefndarinnar um líklega þróun faraldursins var gefin út í gær. Í henni er því spáð að daglegur fjöldi smita með sama áframhaldi og með sömu hegðun almennings geti orðið milli 2-4.500 í byrjun desember. Smit í landinu urðu flest rúmlega 4.500 þann 18. desember í fyrra. Tvennt greinir fyrst og fremst bylgjuna nú og þá að. Í fyrra voru bólusetningar ekki hafnar en þá voru í gildi harðar takmarkanir á samkomum sem öllum var aflétt í september síðastliðnum.
Ráðgjafanefndin, sem starfar á vegum dönsku smitsjúkdómastofnunarinnar, telur að fari sem horfi gætu 60-160 daglega manns þurft á innlögn á sjúkrahús að halda í upphafi desembermánaðar.
Í gær greindust tæplega 2.000 smit í Danmörku. Yfir 114 þúsund sýni voru tekin og hlutfall jákvæðra sýna var því 1,73 prósent. Núna liggja 264 manneskjur á sjúkrahúsi með COVID-19 og hefur þeim fjölgað fjóra daga í röð. Ekki hafa fleiri verið á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins síðan í febrúar.
Samkvæmt spá ráðgjafanefndarinnar verða smit áfram útbreiddust hjá fólki undir sextugu og þeim sem ekki enn hafa verið bólusettir gegn COVID-19. Nefndin tekur fram að margir óvissuþættir liti spárnar og sá stærsti sé hegðun fólks, hvort hún haldist óbreytt eða hvort aukning smita muni hafa þau áhrif að hún breytist. Ráðgjafanefndin gaf síðast út spá í október. Sú spá hefur ekki gengið eftir, það er að segja, fleiri hafa þurft á innlögn að halda en spáð hafði verið. Ein skýringin kann að felast í fjölgun sýna sem tekin eru, m.a. meðal þeirra sem lagðir eru inn á sjúkrahús af öðrum ástæðum en COVID-19 líkt og nýjar reglur kveða á um.
„Við getum ekki sagt nákvæmlega til um hvað er að valda þessu stökki í smitum,“ er haft eftir lækninum Camillu Holten Møller sem fer fyrir nefndinni í fréttatilkynningu.
Aftur aðgerðir eður ei?
Mikil umræða hefur undanfarið verið í Danmörku um hvort grípa eigi til aðgerða innanlands á ný í ljósi þróunar faraldursins. Sérfræðingar hafa nefnt og sumir jafnvel lagt til að grímuskylda verði tekin upp aftur.
Er öllum aðgerðum var aflétt í Danmörku í september var allt önnur staða í faraldrinum en nú og allar tölur á niðurleið og innan við 100 manns með COVID-19 lágu á sjúkrahúsum landsins. En október bar með sér breytingar og hafa dagleg smit verið yfir þúsund allan mánuðinn. Þá hefur innlögnum einnig fjölgað.
Smitsjúkdómastofnun Danmerkur segir að R-talan, sem segir til um hvort faraldur er í vexti eða ekki, sé núna 1,1. Þegar hún er yfir einum er faraldurinn í vexti og þannig er því staðan nú.
75 prósent Dana eru bólusettir gegn sjúkdómnum og örvunarbólusetningar hjá ákveðnum hópum eru hafnar. Yfir 80 prósent 12 ára og eldri eru fullbólusett.
Vilja innleiða kórónupassann
Auk umræðu um grímuskyldu er einnig rætt um svokallaðan kórónupassa í Danmörku. Slíkt tæki hefur áður verið reynt og væri hægt að nota til að lágmarka útbreiðslu. Með honum gæti fólk vottað að það væri bólusett eða sýnt niðurstöður neikvæðra prófa til að komast á ákveðna staði. Christian Wejse, prófessor í lýðheilsufræðum við háskólann í Árhúsum, hefur trú á slíkum passa og segir hann geta hvatt fólk til að fara í bólusetningu og sýnatöku. „Ég held að við þurfum á því að halda í núverandi ástandi,“ sagði hann við danska ríkisútvarpið í vikunni.
Danska ríkisstjórnin hefur ekki lengur heimild til að setja á samfélagslegar takmarkanir án þess að bera það undir þingið. Það breyttist í september er faraldurinn var færður af neyðarstigi á hættustig. Eins og staðan er í augnablikinu virðist ekki vera stuðningur við það á þinginu að setja á harðar aðgerðir. Ef sérstök þingnefnd sem fer með málefni tengd faraldrinum myndi hins vegar mæla með því gæti það haft áhrif á stuðning þingsins við endurkomu aðgerðanna.
Andlát vegna COVID-19 í Danmörku hafa verið að meðaltali um 1-2 á dag síðustu vikur. Þegar verst lét í stóru bylgjunni fyrir ári síðan, þegar bólusetningar voru ekki hafnar, voru þau um og yfir 30 á dag svo að því leyti er staðan allt önnur en hún var fyrir ári. Yfir 2.700 andlát í landinu eru rakin til sjúkdómsins frá upphafi faraldursins.