Lyfjaframleiðandinn Merck ætlar að sækja um leyfi til að markaðssetja fyrsta veirueyðandi lyfið gegn COVID-19. Klínískar rannsóknir lofa góðu og sýna að verulega minni hættu á sjúkrahúsinnlögn og dauða hjá fólki í hááhættuhópum, sé lyfið gefið því fljótlega eftir að sýking af völdum kórónuveirunnar uppgötvast.
Í frétt New York Times um málið segir að lyfjameðferðin gæti orðið ný og áhrifarík viðbót við meðferð sjúkdómsins og þar með enn eitt verkfærið í baráttunni við faraldurinn.
Í fréttinni er haft eftir Robert Shafer, sérfræðingi í veirufræðum við Stanford-háskóla, að hin nýja lyfjameðferð gæti bjargað þúsundum mannslífa um allan heim.
Lyf Merck yrði gefið í pilluformi og samkvæmt rannsóknum er virknin mest þegar sýktir taka fjórar töflur á dag í fimm daga. Lyfið kemur í veg fyrir að kórónuveiran nái að fjölga sér. Tvö önnur sambærileg lyf eru einnig í þróun, annað á vegum Pfizer og hitt á vegum lyfjafyrirtækisins Atea Pharmaceuticals and Roche. Vonir eru bundnar við að þau komi einnig á markað innan fárra mánaða.
Í yfirlýsingu sem Merck sendi frá sér í dag segir að óháð nefnd sérfræðinga telji rannsóknir á lyfinu þegar sýna fram á góða virkni þess og að frekari rannsókna sé því ekki þörf. Einnig kemur fram að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hafi samþykkt þann ráðahag.
Klínísku rannsóknirnar hafa staðið yfir síðan snemma í ágúst. Í þeim hafa 775 sjálfboðaliðar tekið þátt. Af þeim sem gefið var lyfið minnkaði hætta á sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum COVID-19 um 50 prósent, án alvarlegra aukaverkana, í samanburði við þá sem fengu lyfleysu. Sjö prósent þeirra sem fengu lyfið í rannsókninni voru lagðir inn á sjúkrahús. Enginn þeirra lést. Hins vegar lögðust 14 prósent þeirra sem fengu lyfleysu inn og af þeim létust átta manns.
Bandarísk stjórnvöld hafa þegar lagt inn pöntun af COVID-lyfi Merck sem duga á til að meðhöndla 1,7 milljónir sjúklinga.