Átta prósent smita sem greinst hafa í Danmörku síðustu vikuna eru meðal fólks sem hefur komið smitað af veirunni heim úr fríi á Spáni. Þetta kemur yfirmanni borgaraþjónustu danska utanríkisráðuneytisins ekki á óvart þar sem margir Danir sækja í sólina á Spáni þessa dagana þrátt fyrir að smitum hafi fjölgað þar gríðarlega hratt síðustu vikur. Hann segir stöðuna sýna að allir verði að viðhalda þeim „góðu siðum“ sem við höfum tamið okkur í heimsfaraldrinum og á þar við einstaklingsbundnar sýkingavarnir. Að öðrum kosti gæti fólk endað í einangrun á hótelum í sumarfríinu.
„Fólk verður að taka það með inn í myndina að flest lönd setja þá sem smitast í einangrun og þá má viðkomandi ekki fara í flug,“ segir Erik Brøgger Rasmussen, yfirmaður dönsku borgaraþjónustunnar í viðtali við Danska ríkisútvarpið.
Hann segir engin áform uppi um að herða ferðatakmarkanir gagnvart Spáni eða öðrum löndum innan Evrópusambandsins á næstunni, nema að enn eitt afbrigði veirunnar skjóti upp kollinum sem ekki hafi greinst í Danmörku.
„Flestir sem hringja í [borgaraþjónustuna] eru hissa á því að lenda í einangrun erlendis og geta ekki komið heim,“ segir Rasmussen. En borgaraþjónustan geti lítið gert að því. „Við getum ekki farið og sótt fólk af því að það dvelur á farsóttarhótelum og við getum ekki heldur krafist þess að það fái betri þjónustu þar.“
Fjölmargir Danir hafa haft samband við borgaraþjónustuna eftir að greinast með veiruna erlendis. Þetta setur skiljanlega strik í reikninginn hjá fólki, það finnur jafnvel enginn einkenni. Aðrir kvarta yfir því að komast ekki heim í vinnuna. Og enn aðrir spyrja hver eigi eiginlega að borga fyrir dvölina á farsóttarhótelinu. Rasmussen segir að hvað það varði bendi borgaraþjónustan á ferðaskrifstofuna eða á tryggingarfélög.
Skyndileg aukning í fjölda kórónuveirusmita á Spáni hefur komið mörgum í opna skjöldu. Margvíslegar takmarkanir hafa verið settar á þar sem smitin eru hvað útbreiddust. Bæði Spánn og Kýpur eiga í sama vanda og eru komnir á „rauða listann“ hjá nokkrum ríkjum hvað ferðalög varðar, m.a. í Noregi.