Smitum af Delta-afbrigði kórónuveirunnar fjölgar enn hratt í Bretlandi. Á einni viku greindust tæplega 34 þúsund tilfelli og var aukningin því um 78 prósent á milli vikna. Í heild hafa nú tæplega 76 þúsund manns þar í landi greinst með afbrigðið sem uppgötvaðist fyrst á Indlandi og er mun meira smitandi en önnur og jafnvel talið hættulegra. Um miðjan júní höfðu rúmlega 800 manns í Bretlandi þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna sýkingar af völdum Delta-afbrigðisins. Af þeim var mikill meirihluti, eða um 65 prósent, óbólusettur. 84 voru fullbólusettir en í fréttum bæði Guardian og BBC segir ekki ljóst hversu löngu eftir síðari sprautu þeir greindust.
Yfirvöld bjóða nú öllum, átján ára og eldri, að bóka tíma í bólusetningu. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir þar með stórum áfanga náð, innan við 200 dögum eftir að bólusetningarherferðin í landinu hófst. Á sama tíma er talað um að enn ein bylgja COVID-19 sé í raun hafin – þó að hún verði ekki nándar nærri eins banvæn og þær fyrri.
„Tilfellum er að fjölga hratt víða um landið og Delta-afbrigðið er ráðandi,“ hefur Guardian eftir Jenny Harries, framkvæmdastjóra bresku heilsustofnunarinnar. Aukningin er að hennar sögn að mestu bundin við yngri aldurshópa. Hún segir góðu fréttirnar þær að innlögnum á sjúkrahús og dauðsföllum sé ekki að fjölga í takti við smitin. Bólusetningar meðal yngra fólks í Bretlandi eru í fullum gangi. Tæplega helmingur Breta er nú fullbólusettur og vel yfir 60 prósent hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. Staðan nú, líkt og víðast hvar í Evrópu, er því allt önnur en síðasta sumar þegar veiran náði að skjóta sér niður víða yfir sumartímann sem endaði í stórri bylgju faraldursins um haustið.
Til stóð að aflétta samkomutakmörkunum í Bretlandi í júní en því var frestað um fjórar vikur eða til 19. júlí. Þrátt fyrir útbreiddar bólusetningar vöruðu sérfræðingar, m.a. þeir sem starfa við Imperial College í London, við því að fara of hratt í afléttingar. Ekki síst í ljósi þess að Delta-afbrigðið breiddist gríðarlega hratt út og þurrkaði nánast út smit af völdum fyrri afbrigða sem þó voru meira smitandi en þau sem heimsbyggðin glímdi við fyrir ári síðan.
Hvað gerist í haust?
Þýsk yfirvöld sjá fram á svipaðan vanda og Bretar hafa glímt við vegna hins bráðsmitandi Delta-afbrigðis. Smitum tók að fjölda á ný í landinu um miðjan maí sem og innlögnum á sjúkrahús. Sérfræðingar þar í landi hafa minnt á að í Bretlandi hafi þriðjungur þeirra sem lagðir hafa verið inn á sjúkrahús í Bretlandi með COVID af völdum afbrigðisins höfðu fengið að minnsta kosti aðra sprautu bóluefnis. Um 60 prósent íbúa Þýskalands eru nú bólusettir og faraldsfræðingurinn og þingmaðurinn Karl Lauterbach segir enga ástæðu til að óttast hið versta – að minnsta kosti ekki ennþá. Hann hefur þó áhyggjur af haustinu og óbólusettum hópum, m.a. börnum.
Danir ákváðu í gær að hefja bólusetningar meðal barna á aldrinum 12-15 ára síðar á þessu ári. Skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun meðal sérfræðinga sem sumir vilja bíða og sjá niðurstöður frekari rannsóknar áður en slík herferð hefst. Í flestum löndum er enn miðað við sextán eða átján ára aldur.