Chris Hipkins, sem er menntamálaráðherra Nýja-Sjálands og einnig með viðbrögð landsins við heimsfaraldrinum á sinni könnu, sagði í spjallþætti þar í landi á sunnudag að delta-afbrigði kórónuveirunnar og útbreiðsla þess í landinu undanfarna daga væri ef til vill að breyta stöðu mála varðandi viðbrögð Nýsjálendinga við veirunni til lengri tíma.
Eftir að einn einstaklingur greindist með delta-afbrigðið úti í samfélaginu í Auckland fyrir liðna helgi var öllu skellt í lás og hæsta viðbúnaðarstigi lýst yfir í öllu landinu þar til næsta föstudag og út mánuðinn í Auckland.
Það þýðir að allri þjónustu nema þeirri sem allra brýnust þykir gert að loka, skólum sömuleiðis og helst er mælt með því að fólk hitti ekki nokkurn sem er utan þeirra eigin smitbúbblu. Nú eru virk smit í samfélaginu, sem vitað er um, orðin alls 107 talsins. Verið er að skima um 10 þúsund manns sem talin eru mögulega hafa getað orðið útsett fyrir smiti.
Í viðtali í spjallþættinum Q+A á stöðinni TVNZ á sunnudag sagði Hipkins að markmiðið með aðgerðum stjórnvalda væri enn hið sama, að reyna að lágmarka útbreiðslu veirunnar og útrýma henni ef kostur er. Smitin sem nú eru að greinast hafa verið rakin til farþega frá Ástralíu sem var í sóttkví á sóttkvíarhóteli yfirvalda og óljóst er hvernig smitið barst út í samfélagið.
Hið bráðsmitandi delta-afbrigði er að sögn Hipkins að breyta stöðunni og fullyrti hann að dæmi væru um að einstaklingar væru að smita út frá sér innan við sólarhring eftir að þeir sjálfir smituðust af veirunni. Það væri ekki í líkingu við það sem hefði áður sést í faraldrinum.
Ráðherrann sagði delta-afbrigðið vekja upp „stórar spurningar“ sem stjórnvöld í Nýja-Sjálandi þyrftu að fást við og hröð útbreiðslan þýddi að þær varnir sem til þessa hefðu verið að virka til að hamla útbreiðslunni myndu ef til vill ekki reynast jafn áhrifaríkar og áður
Nú þyrfti að skoða langtímastefnuna. Samkvæmt nýsjálenska miðlinum Stuff sagði Hipkins að mögulega yrði ekki hægt að halda sig við það markmið að útrýma veirunni úr samfélaginu í ljósi þess hve hratt delta-afbrigðið breiðist út. Það verður þó reynt.
Ardern stendur við útrýmingarleiðina
Samkvæmt endursögn Guardian af ummælum Hipkins eru þau nokkuð frávik frá því sem ráðherrar í ríkisstjórn Jacindu Ardern hafa viðrað opinberlega til þessa.
Í dag sagði Ardern þó við fréttamenn að útrýmingarleiðin hefði virkað áður og að hún stæði við það að hún teldi hana að óbreyttu bestu leiðina fyrir Nýsjálendinga.
„Við getum bara horft á það sem er best fyrir okkur og við vitum að útrýmingarleiðin hefur virkað fyrir Nýja-Sjáland áður,“ er haft eftir Ardern í frétt nýsjálenska miðilsins Herald.
Nýsjálendingar eru í óðaönn að bólusetja, en kusu að kaupa einungis bóluefni Pfizer og BioNTech og hafa því einungis náð að bólusetja um 20 prósent landsmanna til þessa.
Röksemdir stjórnvalda fyrir þeirri ákvörðun að kaupa bara bóluefni Pfizer voru þær, samkvæmt fréttum frá því í mars, að það væri „sanngjarnt“ að láta alla íbúa landsins hafa sama bóluefnið.
Samkvæmt frétt Herald telur Ardern að bólusetningaráætlun Nýja-Sjálands muni með tíð og tíma minnka þörfina fyrir frekari útgöngubönn og neyðarráðstafanir eins og eru nú í gildi.
Sem fyrr er útrýming veirunnar er markmiðið, þannig að hægt verði að afnema allar takmarkanir í samfélaginu að nýju. Ekki er útséð um hvernig það mun ganga.