Samtök lækna í vestanverðri Ástralíu hvetja stjórnvöld til að herða samkomutakmarkanir í borginni Perth til að reyna að koma í veg fyrir aðra bylgju faraldurs kórónuveirunnar í landinu. Þegar hafa verið settar á miklar takmarkanir í fylkinu Nýja Suður-Wales sem ná til yfir fimm milljóna manna í borginni Sydney og næsta nágrenni. Þar höfðu í gær greinst yfir 110 manns með Delta-afbrigði veirunnar og í dag greindust 30 manns en raðgreiningar sýna er enn beðið. Læknasamtökin telja að með því að herða verulega samkomutakmarkanir í Perth mætti ná utan um sýkingar sem þar hafa nú blossað upp.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í Nýja Suður-Wales gilda í tvær vikur. „Í ljósi þess hversu smitandi afbrigðið er þá eigum við von á því að smittölur eigi eftir að hækka næstu daga,“ sagði fylkisstjórinn Gladys Berejiklian í gær. Aðgerðirnar eru harðar. Það er útgöngubann og fólk á almennt að halda sig heima. Töluverður fjöldi grunnskólanemenda og kennara við nokkra skóla eru komin í einangrun eftir að smit greindust fyrir helgi á síðasta skóladegi fyrir frí.
Þetta er í fyrsta sinn frá því að faraldurinn hófst sem útgöngubann er sett á í Sydney. Almennt hefur smittíðni verið lág í Ástralíu enda snemma gripið til harðra aðgerða, m.a. ferðatakmarkanna. Smitin, sem urðu til þess að takmarkanir voru settar á, komu fyrst upp í Bondi-úthverfinu í borginni fyrir viku. Smit fóru svo að greinast á öðrum stöðum í Sydney og eru m.a. tengd við bílstjóra sem ók fólki til og frá alþjóðaflugvellinum.
Á öðrum svæðum, m.a. í borginni Darwin, hefur tveggja sólarhringa útgöngubann verið sett á.
Delta-afbrigðið, sem fyrst uppgötvaðist á Indlandi, er „mjög ógnvænlegur óvinur,“ sagði ástralski heilbrigðisráðherrann er tilkynnt var um hertar aðgerðir. „Sydney-búar, við munum komast í gegnum þetta í sameiningu,“ sagði Scott Morrison forsætisráðherra.
Starfsfólk skyldað í bólusetningu
Til ennfrekari aðgerða á að grípa í hefur ríkisstjórnin nú ákveðið, í kjölfar neyðarfundar, að skylda allt starfsfólk í öldrunarþjónustu til að fara í bólusetningu. Allir þeir starfsmenn eiga að vera komnir með að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis í september. Þá hefur einnig verið ákveðið að allir geti fengið bóluefni AstraZeneca, óháð aldri.
Morrison sagði eftir neyðarfundinn að Delta-afbrigðið væri sannarlega mun meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar og að fólk sem færi í sóttkví þyrfti héðan í frá að fara í sýnatöku 2-3 dögum eftir að hafa yfirgefið sóttkvíarhótel. Ríkisstjórnin samþykkti einnig að skylda alla starfsmenn farsóttarhúsa til að fara í bólusetningu en fara engu að síður reglulega í sýnatöku.
Bóluefnaskortur
Leiðtogar fylkja Ástralíu eru margir hverjir vonsviknir með hvernig bólusetningarherferð ríkisstjórnarinnar hefur tekist til. Þeir vilja að aðgerðir á landamærum séu hertar frekar nú þegar Delta-afbrigðið er að greinast víða um landið. Innan við fimm prósent Ástrala eru fullbólusettir og er Ástralía í neðsta sæti yfir hlutfallslegan fjölda bólusettra af öllum OECD-ríkjunum.
„Enginn getur verið sáttur við það hvernig bóluefnum er dreift,“ segir Daniel Andrews, fylkisstjóri Viktoríu. „Við glímum við skort.“