Um miðjan mánuðinn ritaði dómsmálaráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómstólasýslunni bréf, þar sem stofnunin, sem sér um sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna í landinu, var beðin um að árétta við forstöðumenn þeirra allra að skylda bæri til þess að auglýsa störf aðstoðarmanna dómara við dómstólana.
Bréfið var ritað eftir að í ljós kom hjá ráðuneytinu, er það var að taka saman svör við tveimur fyrirspurnum Andrésar Inga Jónssonar þingmanns Pírata á síðasta löggjafarþingi, að lausar stöður aðstoðarmanna dómara við dómstólana væru ekki í öllum tilvikum auglýstar lausar til umsóknar og að Hæstiréttur Íslands hefði aldrei ráðið í stöðu aðstoðarmanns dómara að undangenginni auglýsingu.
Eins og rakið var í svari dómsmálaráðherra til Andrésar Inga á þingi sýndu upplýsingar sem aflað var hjá Hæstarétti að frá árinu 2006 hefði alls 23 einstaklingar verið ráðnir sem aðstoðarmenn ráðherra án auglýsingar, allt lögfræðingar sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands.
Dæmi voru um að lögfræðingar hefðu sinnt starfinu, eftir að hafa hlotið tímabundna ráðningu til að byrja með, í allt að fimm ár.
Í bréfinu, sem sent var 17. ágúst og Kjarninn fékk afhent frá ráðuneytinu, áréttar ráðuneytið að samkvæmt ákvæðum laga um dómstóla eigi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að gilda um bæði ráðningar og starfslok starfsmanna dómstólanna.
Þar segir að samkvæmt þessum lögum eigi að auglýsa opinberlega önnur störf en störf embættismanna við dómstólanna, samkvæmt reglum sem settar eru af fjármála- og efnahagsráðherra.
Í þeim reglum segir að auglýsa skuli laus störf og að umsóknarfrestur skuli vera að minnsta kosti tíu dagar frá birtingu auglýsingar. Einnig eru í ákvæðinu tilteknar undanþágur frá auglýsingu opinbera starfa, svo sem ef störf eru tímabundin vegna sérstakra nánar tilgreindra ástæðna.
„Af framangreindu leiðir að lausar stöður aðstoðarmanna dómara ber að auglýsa opinberlega nema þær undanþágur sem getið er í 2. gr. reglna nr. 1000/2019 eigi við. Þess skal jafnframt getið að í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um dómstóla er gengið út frá því að störf við dómstóla séu að meginstefnu auglýst opinberlega,“ segir í bréfi ráðuneytisins.
Ráðuneytið sagðist fara „þess á leit við dómstólasýslunna að auglýsingaskylda starfa aðstoðarmanna dómara sé áréttuð við forstöðumenn héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar Íslands.“
Breyttir siðir með nýju fólki í Hæstarétti
Eins og Kjarninn sagði frá í vikunni hefur Hæstiréttur ekki auglýst störf á undanförnum árum og í svari frá fyrrverandi skrifstofustjóra dómstólsins til Kjarnans, sem barst í maí, sagði að áhersla væri lögð á að sem hæfastir lögfræðingar réðust til starfa sem aðstoðarmenn hæstaréttardómara.
„Þar sem aðstoðarmenn eru í upphafi ráðnir tímabundið hefur þótt heppilegra að auglýsa ekki þar sem talið hefur verið að hæfustu umsækjendur myndu síður sækja um slík störf,“ sagði í svari Þorsteins A. Jónssonar, lét nýlega af störfum sem skrifstofustjóri dómstólsins, við fyrirspurn Kjarnans.
Ólöf Finnsdóttir, sem tók við starfi skrifstofustjóra af Þorsteini í sumar, sagði við Morgunblaðið á föstudag að með nýju fólki kæmu breyttir siðir. Auk þess sem Ólöf hefur tekið við skrifstofustjórastöðunni var Benedikt Bogason nýlega kjörinn forseti dómstólsins.
Fyrir nokkrum dögum var aðstoðarmannastaða við dómstólinn auglýst laus til umsóknar og sagði Ólöf við Morgunblaðið að sá háttur yrði hafður á hér eftir.
„Ég er talskona þess að við vinnum fyrir opnum tjöldum,“ sagði hún.