Lítill lestur á bloggfærslum Donalds Trumps, fyrrum Bandaríkjaforseta, var helsta ástæða þess að hann ákvað að loka heimasíðu sinni, From the Desk of Donald J. Trump eða Frá skrifborði Donalds J. Trumps. Lestur á síðunni var sambærilegur við lestur frétta frá miðlungsstórum héraðsmiðlum samkvæmt gögnum og greiningu NewsWhip. Frá þessu er greint í netmiðlinum Axios en í umfjöllun miðilsins kemur fram að þrátt fyrir að stuðningshópur forsetans fyrrverandi geti talist nokkuð stór þá hafi Trump mistekist að breyta venjum fylgjenda sinna á netinu. Af þeim sökum var umferðin á bloggsíðu Trumps ekki jafn mikil og hann hefði ef til vill vonast eftir. Heimasíðu forsetans var lokað á þriðjudag.
Bloggsíða forsetans fyrrverandi fór í loftið þann 4. maí síðastliðinn svo líftími síðunnar náði því ekki að fylla heilan mánuð. Þegar síðan fór í loftið var hún kynnt með pompi og prakt. Í sérstöku kynningarmyndbandi er síðunni lýst sem „kyndli frelsis“ sem rísi upp á tímum þöggunar og lyga. Í umfjöllun Washington Post er haft eftir einum að ráðgjöfum Trumps að hann hafi tekið ákvörðun um að loka síðunni vegna þess að honum líkaði það ekki að fólk gerði grín af því hve lítið færslur hans væru lesnar.
Stóru samfélagsmiðlarnir „leiðinlegir og andstyggilegir“
Washington Post birti fréttaskýringu í síðari hluta maímánaðar þar sem sagt var frá því að áhrif Trumps á netinu færu dvínandi og að nýja bloggsíðan væri ekki að ná til fólks í jafn ríkum mæli og ef til vill hefði mátt búast við. Í kjölfarið sendi Trump frá sér tilkynningu þar sem hann sagði að síðan hefði notið verðskuldaðrar athygli, en athyglin hefði tvímælalaust verið meiri hefði honum ekki verið úthýst af Facebook og Twitter.
Trump hélt því fram í tilkynningunni að fylgjendur sínir í tuga milljóna tali hefðu snúið bakinu við Facebook og Twitter vegna þess að miðlarnir væru orðnir „leiðinlegir og andstyggilegir“ en gögn frá miðlunum sjálfum sýna að notkun í Bandaríkjunum hefur verið nokkuð stöðug síðan Trump lét af embætti, ef eitthvað er hefur notkunin aukist á þeim tíma sem liðinn er síðan forsetanum var úthýst af samfélagsmiðlunum.
Orðinn hálf raddlaus
Fylgjendatölur forsetans stóðu í hæstu hæðum í fyrri hluta janúar, á þeim tíma er æstur múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjanna. Einn af eftirmálum áhlaupsins á þinghúsið var víðtækt bann sem Trump mátti sæta á hinum ýmsu samfélagsmiðlum og vefsíðum. Áður en lokað var fyrir reikninga Trumps hafði hann 88 milljónir fylgjenda á Twitter en um 35 milljónir á Facebook.
Rödd Trumps útávið hefur því hljóðnað töluvert á síðustu mánuðum. Á síðasta degi vefsíðunnar náðu færslur forsetans að hala inn um 1500 deilingum og athugasemdum í gegnum Facebook og Twitter sem er ansi lág tala ef miðað er við viðbrögðin í formi „like-a“ og „retweet-a“ sem forsetinn fékk á hvert einasta tíst sem hann sendi frá sér en tala þeirra stóð gjarnan í tugum ef ekki hundruðum þúsunda.