Á þriðjudaginn mun heilbrigðisráðherra setja nýja reglugerð þar sem dregið verður úr grímuskyldu og létt verður á samkomutakmörkunum þannig að 150 manns munu mega koma saman í stað 50. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, en sóttvarnaaðgerðir voru meðal þess sem rætt var á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Samkvæmt tilkynningu á vef stjórnarráðsins hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að framlengja reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamærin til 15 júní næstkomandi. „Á þeim tíma er gert ráð fyrir að a.m.k. 60% þjóðarinnar, sem jafngildir 75% af þeim sem áætlað er að bjóða í bólusetningu, hafi fengið a.m.k. fyrri skammt bólusetningar. Með þessu er tekið undir sjónarmið sóttvarnalæknis um að skynsamlegt sé að halda sýnatöku á landamærum óbreyttri um sinn í því skyni að geta hafið afléttingu sýnatöku á landamærum um miðjan júní,“ segir í tilkynningunni.
Ekki skylda að dvelja í sóttvarnahúsi
Reglugerðin mun engu að síður taka einhverjum breytingum. Þannig verður skyldudvöl í sóttvarnahúsi vegna komu frá hááhættusvæði felld úr gildi. Sóttvarnahúsin verða enn notuð en notkunin færist í fyrra horf. Þau verða því í notkun fyrir einstaklinga sem gert er að sæta sóttkví og eiga ekki samastað hér á landi eða geta af öðrum sökum ekki eða vilja ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum.
Þar kemur einnig fram að reglugerð dómsmálaráðherra um bann við ónauðsynlegum ferðalögum frá skilgreindum áhættusvæðum vegna COVID-19 muni falla úr gildi 1. júní næstkomandi.
Þá var á ríkisstjórnarfundinum ákveðið að litakóðakerfi á landamærunum muni ekki taka gildi. Nú sé stefnt að því að aflétta aðgerðum á landamærunum hraðar gagnvart öllum löndum, óháð stöðu faraldursins í þeim vegna þess að fjöldi bólusettra eykst hröðum skrefum, eins og það er orðað í tilkynningunni. „Við slíkar aðstæður er enginn ávinningur í því að taka upp litakóðakerfi í skamman tíma.“
Það er bjartur maídagur í dag og það birtir til í samfélaginu öllu. Á þriðjudaginn mun heilbrigðisráðherra setja nýja...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Friday, May 21, 2021