Druslugangan fer fram á morgun, laugardaginn 23. júlí, þar sem gengið verður frá Skólavörðuholti niður á Austurvöll til stuðnings þolendum kynferðisofbeldis, eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs. Sérstök áhersla verður lögð á valdamisvægi og reynsluheim jaðarsettra hópa innan samfélagsins í göngunni í ár.
Gangan var haldin í fyrsta sinn á Íslandi 23. júlí árið 2011. Í samtali við Kjarnann segja skipuleggendur að Druslugangan sé ein af þeim samtökum sem hafa það að markmiði að þörfin fyrir þau hætti að vera til staðar og að margvísleg bakslög í mannréttindabaráttunni hafi sýnt að ekki megi sofna á verðinum þegar sjálfræði kvenna og annarra jaðarsettra hópa séu í húfi.
Ekki hægt að uppræta kynferðisofbeldi án þess að horfast í augu við þau valdakerfi sem gera ofbeldinu kleift að viðgangast í þögn
„Fólk skilur í auknum mæli að samþykki lítur ekki alltaf eins út, heldur tekur mið af aðstæðum. Þættir eins og aldur, staða, vímuefnavandi, þroskahamlanir, kynþáttafordómar, bágur fjárhagur, fjölskyldutengsl og svo framvegis, hafa áhrif á möguleika fólks til að veita upplýst og einlægt samþykki til kynferðislegra athafna. Þessi þróun í viðhorfum virðist að sama skapi vera að ryðja sér til rúms við reglusetningu og ákvarðanatöku valdhafa, eins og dómara. Tekin hafa verið stór skref í rétta átt, til dæmis með því að sífellt fleiri mannréttindasamtök skipa kynferðisofbeldi í flokk stríðsglæpa og/eða ólögmætrar vopnbeitingar, auk þess sem skilgreining íslenskrar löggjafar tekur vaxandi tillit til þessa veruleika.“
Þess vegna vilji skipuleggendur leggja áherslu á þessi sjónarmið í göngunni í ár. Gangast verði við því kynferðisofbeldi eigi sér sjaldnast stað í tómarúmi og ekki sé hægt að uppræta kynferðisofbeldi án þess að horfast í augu við þau valdakerfi sem gera ofbeldinu kleift að viðgangast í þögn. „Ef að við höldum áfram að meðhöndla kynferðisbrot sem einangruð tilvik fáum við aldrei heildarmyndina sem þarf til að skilja og afnema nauðgunarmenningu.“
Gengið verður frá Hallgrímskirkju kl. 14 á morgun og haldið niður á Austurvöll þar sem hlýtt verður á ræður frá jaðarsettum konum. „Við biðjum gesti göngunnar og stuðningsfólk þolenda að hlusta á upplifanir jaðarsettra kvenna, sem ætla að halda ræður á laugardaginn, og læra hvernig við getum gert betur í þeirra málaflokki svo kynferðisofbeldi fái ekki þrifist. Vonin er að þessar áherslur endurspeglist svo í starfi þeirra sem eiga aðkomu að stefnumótun á sviði kynferðisofbeldis.“