Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er nýlega komin heim eftir 14 ára farsælan feril í sem framleiðandi tölvuleikja í Svíþjóð, Kanada og Bandaríkjunum. Hún kemur inn í íslenskt viðskiptalíf með víðtæka stjórnunarreynslu og segir að nú sé lag að laða hingað til lands þekkingarstarfsmenn.
Sigurlína er í viðtali í áramótablaði Vísbendingar. Í blaðinu er sjónum sérstaklega beint að fjölbreytni, jafnrétti og því hvernig unnt er að nýta hæfni og krafta breiðari hóps í viðskiptalífinu, ekki síst í stjórnum og stjórnunarstöðum, en ekki bara hæfni og krafta þeirra sem eru líkir þeim sem stýra fyrir.
Varasamt að of þröngir eða einsleitir hópar taki stórar ákvarðanir
Hún bendir á í viðtalinu að það sé varasamt að of þröngir eða einsleitir hópar taki stórar ákvarðanir, enda byggir ákvarðanir einstaklinga ávallt á reynslu þeirra sjálfra að einhverju leyti. Fólk geti ekki endurspeglað reynslu sem það hefur ekki. Þá segir hún mikilvægt að nýta þá stöðu sem skapast hefur með uppsögnum stórra tæknifyrirtækja á hæfu starfsfólki. Tækifæri geti falist í því fyrir Ísland að laða þekkingarstarfsmenn hingað til lands.
Áskorun sem stjórnarmenn og aðrir leiðtogar í viðskiptalífinu standi frammi fyrir telur hún tvíþætta. „Ögrunin fyrir stjórnir fyrirtækja er hvernig sinnum við samfélagslegri ábyrgð gagnvart neytendum samhliða því að nýta þau tækifæri sem sérstaða Íslands veitir. Ég held að við þurfum að vera annars vegar meðvituð um áskoranirnar en líka reyna að sjá tækifæri í þessu,“ segir Sigurlína.
Hún nefnir sem dæmi nýsköpunarfyrirtæki sem reiða sig mikið á þekkingarstarfsmenn.„Nú er það þannig að stórfyrirtæki á til dæmis tæknimarkaði, fyrirtæki eins og Facebook og Google, eru mörg hver búin að setja ráðningarstopp vegna kröfu um aukna arðsemi eða jafnvel segja upp fólki. Tæknifyrirtæki sem hafa verið með þúsundir starfsmanna hafa verið að skera talsvert niður. Þarna er hópur af fólki, mjög hæfu fólki, sem kannski hefur misst vinnuna og það er þörf fyrir þetta vinnuafl á Íslandi.“
Sóknarfæri fyrir þekkingargeirann
Ísland sem samfélag hafi upp á ótrúlega margt að bjóða fyrir þennan hóp að mati Sigurlínu. „Það er gott að búa hérna, samfélagið er öruggt og ég held að þarna séu sóknarfæri fyrir þekkingargeirann, að ná sér í þetta starfsfólk. Spennan á þessum markaði, hámenntuðu sérfræðinganna og forritara, hún hefur verið mikil mjög lengi. Nú þegar þessi stóru fyrirtæki og mörg smærri eru eru að losa sig við starfsfólk þá er lag fyrir okkur að sækja þetta fólk.“
Mikil samkeppni er um starfsfólk í tölvuleikjageiranum að sögn Sigurlínu, geira sem hún þekkir best. „Það hefur þurft að sækja mikið af sérfræðingum og koma með þekkingu þeirra til Íslands. Auðvitað hefur orðið til líka mjög mikið af íslenskum sérfræðingum en það er líka bara gott fyrir öll samfélög að fá inn nýtt blóð. Fá inn fólk sem kemur úr öðru umhverfi, frá öðrum fyrirtækjum, hugsar öðruvísi og kemur með ferskar hugmyndir.“
„Hér er nóg pláss“
Hún bendir á að hingað komi margt fólk í þjónustustörf, til dæmis í ferðaþjónustu, en að það sé gott fyrir samfélagið að sækja líka fólk í fleiri geira.
„Hér er nóg pláss, það er kannski ekki eins mikið framboð af húsnæði eins og þyrfti, en að því gefnu að okkur lánist að byggja nóg þá eigum við að bjóða fólk alls staðar að velkomið hingað. Hér er virkilega gott að búa, það er dásamlegt að vera með börn á Íslandi, þau geta verið frjáls. Ég hefði aldrei gefið dóttur minni strætókort og leyft henni að vera frjáls í Bandaríkjunum. Það að vera kjörkuð og óhrædd við að láta á sig reyna, það kemur úr umhverfi okkar og það gerir það að verkum að börnin okkar verða sjálfstæð og fær um að spreyta sig. Ég held að það sé dýrmætt og við þurfum að gefa fleirum tækifæri á að upplifa það að búa í svona umhverfi.“
Viðtalið við Sigurlínu má lesa í heild sinni í áramótablaði Vísbendingar.