Á nýbirtum lista Bloomberg yfir 500 ríkustu manneskjur heims er að finna hóp fólks sem tengist nánum fjölskylduböndum. Nokkur þeirra voru þar fyrir en önnur eru „nýliðar“ meðal mestu milljarðamæringanna og skýringin á fyrst og fremst rætur að rekja til stríðsrekstrar Rússa í Úkraínu.
Stríð hafa áhrif á heimshagkerfið. Allt á það til að hækka, hvort sem það er matur, orka eða jarðmálmar hvers konar. Stríðið í Úkraínu er þar engin undantekning, stríð sem hefur staðið í meira en fimmtíu daga, lagt heilu og hálfu borgirnar í rúst, orðið til þess að milljónir hafa lagt á flótta og hundruð ef ekki þúsundir almennra borgara látið lífið eða særst. Og því virðist ekkert ætla að ljúka á næstunni. Rússar gerðu áhlaup á margar borgir Úkraínu í nótt og morgun. Það versta gæti enn átt eftir að koma, vilja úkraínsk stjórnvöld meina.
Verð á matvælum í heiminum fer samhliða stríðinu hækkandi og það verulega. Sameinuðu þjóðirnar vara við enn frekari hækkunum og að þær gætu orðið meiri en nokkru sinni áður. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) benda á að matarvísitala hennar hafi hækkað um tæp 13 prósent milli febrúar og mars og hafi tekið „risastórt stökk“ upp í „nýjar og hæstu hæðir“ frá því að hún var fyrst tekin saman í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.
Þetta er ekki eina „risastökkið“ sem orðið hefur að undanförnu því á öðrum lista, milljarðamæringalista Bloomberg, hafa sumir einnig tekið gríðarleg stökk síðustu daga og vikur. Nýliðar vikunnar eru systkini sem tilheyra hinni ofurríku, bandarísku Cargill-fjölskyldu. Þau James Cargill, Austen Cargill og Marianne Liebmann, hafa nú skotist upp á lista yfir 500 ríkustu manneskjur jarðar og slást þar með í hóp frændsystkina sinna sem þar voru fyrir þeirra Pauline Keinath og Gwendolyn Sontheim Meyer. Öll eru þau barnabarnabörn Wallace Cargill sem stofnaði árið 1865 fyrirtækið Cargill. Fyrirtæki sem nú er með 155 þúsund starfsmenn í vinnu í um sjötíu löndum víðs vegar um heiminn. Og þetta fyrirtæki, sem frændsystkinin fimm eiga meirihluta í, verslar með ýmislegt en fyrst og fremst matvæli.
Methagnaður í fyrra
Auður þeirra er samkvæmt Bloomberg metinn á bilinu 5,4-8 milljarða bandaríkjadala, eða um 650-1.000 milljarða íslenskra króna. Cargill-samsteypan, sem á mikið undir í matvælamarkaði sem og viðskiptum með orku og málma, býst við met hagnaði í ár og að hann slái met síðasta árs en þá nam hann 5 milljörðum dala. Fyrirtækið rekur jafnt nautgripabú sem gríðarstór sláturhús, ræktar korn, pakkar matvælum af öllum toga og dreifir. Cargill-fjölskyldan, sem á um 90 prósent í fyrirtækinu, er talin sú fjórða ríkasta í Bandaríkjunum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við „höggbylgju“ áhrifa á hrávörumarkaði hafa átt sér stað, m.a. á korn fyrir búfénað og grænmetisolíur. FAO segir að verð þessum vörum, sem og kornvörum almennt og kjöti, séu hærra en nokkru sinni.
Í grein á vef breska blaðsins Guardian, þar sem fjallað er um Cargill sem og hvers vegna stríðið hafi þessi áhrif á markaði, kemur fram að rof hafi orðið í flutningum um Svartahafið en löndin umhverfis það hafa flutt út meira en fjórðung alls hveitis í heiminum, svo dæmi sé nefnt. Úkraína var stórtækt í útflutningi á bæði hveiti og maís og er bæði sú framleiðsla og sá útflutningur í uppnámi. Þá hefur Rússland lagt mikið til margvíslegs útflutnings en þar sem landið sætir nú ýmsum viðskiptaþvingunum, bæði hvað varðar sölu á vörum og flutninga, m.a. með skipum, hefur það áhrif sem hríslast um allt alþjóða hagkerfið.
Í grein Guardian er tekið sem dæmi að verð á hveiti hafi hækkað um 19,7 prósent á einum mánuði og verð á maís um 19 prósent. Aðrar korntegundir hafa sömuleiðis hækkað verulega í verði.
Það er ekki aðeins stríðið í Úkraínu sem hefur haft áhrif á hagnað Cargill-samsteypunnar. Nokkru fyrir stríð var verð á ýmsum varningi, m.a. matvælum, farið að hækka sem rekja má til kórónuveirufaraldursins. Á meðan faraldrinum stóð rofnuðu ýmsar framleiðslu- og flutningskeðjur og viðbúið var að það myndi taka tíma að komast aftur í samt horf.
Hagnaður Cargill jókst um 63 prósent í fyrra miðað við árið 2020 og hefur aldrei verið meiri í 157 ára sögu fyrirtækisins.
Íbúar á vesturlöndum geta margir hverjir komist af þrátt fyrir þetta. Það eru fátækustu jarðarbúarnir sem munu helst súpa seyðið af þessum hækkunum – hækkunum sem gætu, verði þær viðvarandi, steypt milljónum ofan í hyldýpi fátæktar með ófyrirséðum afleiðingum til framtíðar.