Þrjú einkafyrirtæki uppfylla skilyrði reglugerðar heilbrigðisráðherra til greiðslna frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir töku hraðprófa. Ekki er unnt að upplýsa um nákvæman kostnað vegna þessara prófa þar sem SÍ hafa ekki borist allir reikningar en í lok nóvember höfðu fyrirtækin fengið greiddar tæplega 240 milljónir króna, segir í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans um kostnað vegna hraðprófa. Að auki sér Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins um töku hraðprófa og einnig eru þau tekin á stofnunum úti á landsbyggðinni.
Ný reglugerð um fjöldatakmarkanir tók gildi 12. nóvember og samkvæmt henni má halda viðburði fyrir allt að 500 manns gegn því að niðurstöðu úr hraðprófum sé framvísað.
Fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðherra um töku hraðprófa að Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða einkaaðilum sem uppfylla skilyrði og hafa heimild til að annast hraðpróf (antigeng-próf) kostnað vegna þeirra samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Gjaldið nemur 4.000 krónum á hvert sýni og á að standa undir kostnaði við prófin og framkvæmd þeirra. Þeir aðilar sem um ræðir eru Öryggismiðstöðin, Sameind og Arctic Therapeutics. Mikil aðsókn hefur verið í prófin undanfarið enda margvíslegir viðburðir í boði.
Yfir 80 þúsund próf á þremur vikum
Heilbrigðisráðuneytið óskaði fyrir nokkru eftir upplýsingum um fjölda tekinna hraðprófa á höfuðborgarsvæðinu og í heilbrigðisumdæmum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en þorri allra hraðprófa er tekinn á þessu svæði. Upplýsingarnar tóku til tímabilsins 1. til 20. nóvember. og voru þetta samtals 81.815 hraðpróf.
Aðgengi að hraðprófum var aukið í byrjun desember með lengdum opnunartíma fyrir sýnatökur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Suðurlandsbraut, með það að markmiði að koma betur til móts við menningartengda viðburði á aðventunni.
Það er faglegt mat sóttvarnalæknis og heilbrigðisyfirvalda að notkun hraðprófa til að sporna við útbreiðslu veirunnar sé mikilvæg og hafi reynst árangursrík, segir í svari heilbrigðisráðuneytisins við spurningu Kjarnans um árangur af notkun hraðprófa sem tekin eru á vegum heilsugæslunnar og annarra aðila sem uppfylla skilyrði ráðuneytisins við töku þeirra samkvæmt reglugerð.
Ráðuneytið var einnig spurt hvort til greina kæmi að hvetja fólk til að taka COVID-próf heima hjá sér sem lið í baráttunni við útbreiðslu faraldursins og benti ráðuneytið þá á að þau próf sem fólk getur tekið sjálft, oft í daglegu tali kölluð sjálfspróf, veiti ekki undanþágu frá fjöldatakmörkunum, enda séu þau ekki talin mjög áreiðanleg.