Samfylkingarfólk hefur valið sér fulltrúa á lista til borgarstjórnarkosninga í vor, en flokksval fór fram með rafrænni kosningu um helgina.
Úrslitin urðu eftirfarandi:
- sæti Dagur B. Eggertsson með 2.419 atkvæði í 1. sæti.
- sæti Heiða Björg Hilmisdóttir með 1.926 atkvæði í 1.- 2. sæti.
- sæti Skúli Helgason með 1.104 atkvæði í 1. - 3. sæti.
- sæti Sabine Leskopf með 910 atkvæði í 1. - 4. sæti.
- sæti Hjálmar Sveinsson með 1.122 atkvæði í 1. - 5. sæti.
- sæti Guðný Maja Riba með 1.212 atkvæði í 1.- 6. sæti.
Í næstu sætum voru Sara Björg Sigurðardóttir í 7. sæti og Ellen Jacqueline Calmon í 8. sæti.
Á kjörskrá voru 6.051 og atkvæði greiddu 3.036. Kjörsókn var 50,2%
Í flokksvalinu völdu flokksfélagar og stuðningsmenn þá einstaklinga sem skulu skipa í efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Niðurstaða fyrir sex efstu sætin er bindandi fyrir uppstillingarnefnd, að teknu tilliti til reglna Samfylkingarinnar um að ekki halli á hlut kvenna, að því er segir í tilkynningu á vef Samfylkingarinnar.
Fimmtán gáfu kost á sér í flokksvalinu en flokkurinn er nú með sjö borgarfulltrúa. Allir sitjandi borgarfulltrúar nema einn gáfu kost á sér í flokksvalinu. Engin barátta var um efstu tvö sætin, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gaf einn kost á sér í fyrsta sætið og Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi var sömuleiðis sú eina sem sóttist eftir öðru sætinu.
Borgarfulltrúarnir Skúli Þór Helgason og Hjálmar Sveinsson sóttust báðir eftir þriðja sæti listans auk þess sem Sabine Leskopf borgarfulltrúi gaf kost á sér í þriðja til fjórða sæti. Borgarfulltrúinn Ellen Calmon gaf kost á sér í fimmta sæti listans.
Aron Leví Beck, Guðný Maja Riba, Ólöf Helga Jakobsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir sóttust eftir fjórða til sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar, Birkir Ingibjartsson, Þorkell Heiðarsosn og Þorleifur Örn Gunnarsson gáfu kost á sér í fimmta sætið og þeir Pétur Marteinn Urbanic Tómasson og Stein Olav Romslo vildu fimmta til sjötta sætið.