„Ég sagði við mig sjálfa og sagði við ykkur að þetta yrði eins og að synda í gegnum á úr skít. Ég sagði það við ykkur og þannig hefur þetta verið en við gáfumst ekki upp. Það er alveg sama hvað kom, við gáfumst ekki upp því við vissum að þetta er okkar barátta.“
Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir nýkjörin formaður Eflingar við félaga sína á Barion Bryggu í sigurræðu sinni í gær. Baráttulistinn, sem leiddur var af Sólveigu Önnu, vann sigur í stjórnarkjöri Eflingar sem lauk í gær en hann fékk 52 prósent greiddra atkvæða.
Aðrir á B-lista eru þau Ísak Jónsson, Guðbjörg María Jósepsdóttir, Innocentia F. Friðgeirsson, Kolbrún Valvesdóttir, Michael Bragi Whalley, Olga Leonsdóttir og Sæþór Benjamín Randalsson. Skoðunarmenn reikninga eru Barbara Sawka, Magnús Freyr Magnússon og Valtýr Björn Thors, sem er varamaður.
„Algjörlega galið ástand“
Sólveig Anna hóf ræðu sína á því að óska öllum viðstöddum til hamingju.
„Þetta er náttúrulega búið að vera algjörlega galið ástand. Ég held ekki að nein kosningabarátta sem ég hef orðið vitni af hafi verið jafn hatrömm af hálfu andstæðinganna.
En okkur tókst þetta og við erum búin að vinna sigur í þessum kosningum og ég vil að við tökum smá tíma til að meðtaka það að eftir allt sem á undan hefur gengið – allan þann trylling sem á hefur gengið – þá tókst okkur að fá samþykki félagsfólks Eflingar fyrir því að við á Baráttulistanum eigum að fá að stýra efnahagslegri réttlætisbaráttu verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði hún.
Stolt og þakklát
Sólveig Anna sagðist vera stolt og þakklát fyrir að hafa kynnst félögum sínum á Baráttulistanum.
„Ég er stolt og þakklát fyrir að vera félagskona í Eflingu, ykkar félagi, og ég er stolt og þakklát yfir því að hafa fengið að fara með ykkur í gegnum þessa baráttu. Ég sagði við mig sjálfa og sagði við ykkur að þetta yrði eins og að synda í gegnum á úr skít. Ég sagði það við ykkur og þannig hefur þetta verið en við gáfumst ekki upp. Það er alveg sama hvað kom, við gáfumst ekki upp því við vissum að þetta er okkar barátta. Við vissum að við höfum unnið stóra sigra og við vissum að við erum rétt að byrja.
Félagsfólk Eflingar hefur ákveðið að standa með okkur þannig að kæra fólk, ég vildi að ég hefði eitthvað meira að segja á þessum tímapunkti en ég get ekki annað en aftur sagt að hjarta mitt er fullt af stolti og þakklæti og ég hlakka til að taka næsta og næsta og næsta slag með ykkur og ég veit að þetta er aðeins byrjunin á þeim mikilvægu og stóru sigrum sem framundan eru. Takk fyrir, kæru félagar,“ sagði hún að lokum.
Draga megi lærdóm af átökum síðustu vikna
Eins og kunnugt er sögðu Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn, Viðar Þorsteinsson, starfi sínu lausu fyrr í haust eftir átök á skrifstofu stéttarfélagsins.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem leiddi A-listann og fékk 37 prósent greiddra atkvæða, sagðist í samtali við Vísi í gær vera vonsvikin yfir úrslitum kvöldsins en að hún virti að sjálfsögðu vilja félagsmanna. Hún taldi að draga mætti lærdóm af átökum síðustu vikna innan Eflingar. Þá sagði hún mikilvægt að félagsmenn veittu stjórn Eflingar meira aðhald nú en áður.