Áhyggjur fara vaxandi í Frakklandi vegna enn einnar bylgju faraldursins sem þar er skollinn á af miklum þunga. Efasemdir eru uppi um að stjórnvöld séu að gera nóg en þau hafa farið þá leið að beita staðbundnum aðgerðum þar sem smit eru hvað útbreiddust. Þar, líkt og annars staðar í Evrópu, er það hið stökkbreytta afbrigði veirunnar, kennt við Bretland, sem kynt hefur undir pestarbálinu.
COVID-sjúkum sem leggjast hafa þurft inn á gjörgæsludeildir eru helsta áhyggjuefnið. Á einni viku fjölgaði þeim um tíu prósent og samkvæmt opinberum gögnum heilbrigðisyfirvalda er staðan nú þannig að um 90 prósent allra gjörgæslurúma eru nýtt.
Benjamin Clouzeau, gjörgæslulæknir á Bordeaux-háskólasjúkrahúsinu í suðvesturhluta Frakklands, segir að 90 prósent allra þeirra sem leggjast þar inn með COVID-19 séu sýktir af hinu breska afbrigði. Hann segir sjúklingahópinn umtalsvert yngri en í fyrri bylgjum faraldursins, flestir á aldrinum 30-65 ára. Að hans sögn eru flestir þeirra ekki í sérstökum skilgreindum áhættuhópi. Einhverjir þeirra eru með sykursýki og aðrir í ofþyngd en það eigi aðeins við um mikinn minnihluta sjúklinganna.
Svo ungir eru þessir sjúklingar að áður en þeir leggjast inn hafa þeir ekki hitt lækni vegna veikinda sinna, að sögn Clouzeau, þar sem þetta sé upp til hópa ungt og hraust fólk sem hafi ætlað að hrista veikindin af sér heima, „en svo örmagnast algjörlega“.
Eftir að hafa glímt við faraldurinn í heilt ár eru margir orðnir ónæmir fyrir tölum um fjölda smita og dauðsfalla vegna COVID-19. Clouzeau bendir á að engu að síður séu þessar tölur ógnvekjandi í augnablikinu.
„Síðastliðið ár hafa tölur um fjölda smita og dauðsfalla dunið á frönskum almenningi,“ segir hann. „En við skiljum ekki alltaf hvað þessar tölur raunverulega þýða: 300, 400 dauðsföll á dag – það er eins og farþegaflugvél hrapi daglega. Þetta er hætt að snerta fólk.“
Það er ekki lengra síðan en fyrir nokkrum vikum að það var fyrst og fremst aldrað fólk sem var að deyja vegna COVID-19. „Núna eru dauðsföllin [í Frakklandi] 200-300 á dag en það er ekki lengur aðeins gamla fólkið sem er að deyja. Þetta er fólk sem átti enn eftir 30-40 ár af ævi sinni.“
Hann hvetur fólk því til að „venjast“ ekki þessum tölum, „því ef við gerum það er baráttan töpuð. Svo við skulum ekki gleyma: Flugslys á hverjum degi er stórmál.“
Hinar hertu aðgerðir sem nýverið tóku gildi í Frakklandi fela m.a. í sér að fólk má dvelja utan heimilis síns eins lengi og það vill, þó ekki að næturlagi og ekki fara í meira en tíu kílómetra fjarlægð frá því. Sex mega koma saman en ferðalög milli svæða eru bönnuð nema að nauðsyn krefji. Flestar verslanir eru lokaðar en á því eru undantekningar. Skólar eru enn opnir en kvikmyndahús, söfn og fleira lokað.
Þessar aðgerðir eru töluvert vægari en í fyrri bylgjum faraldursins í Frakklandi og hafa stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir það því á sama tíma eru sjúkrahús að fyllast af fárveiku fólki.
Á hraðvaxtarskeiði
Solen Kernéis, smitsjúkdómasérfræðingur á Bichat-sjúkrahúsinu í París sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að hann skyldi vel löngunina til að hafa aðgerðirnar svæðisbundnar „en í því ástandi sem við erum í núna þá er ég ekki sannfærður um að þær muni hægja á útbreiðslunni“. Hann segir síðustu vikur hafa verið sérstaklega slæmar og hefur áhyggjur af þróun næstu daga og vikna.
„Við erum á hraðvaxtarskeiði í faraldrinum.“
Heilbrigðisráðherra Frakka, Olivier Véran, varði þessa ákvörðun og sagði Frakka komna með nóg af mjög hörðum aðgerðum enda hafi þeir barist við faraldurinn sleitulaust í heilt ár. Hann segir þó ekki útilokað að enn verði hert á aðgerðum.
Búið er að fresta um 80 prósent svokallaðra valaðgerða, þ.e. aðgerða annarra en bráðaaðgerða, á sjúkrahúsum í landinu. Þá segir ráðherrann að meðalaldur sjúklinga sem eru að leggjast inn með COVID-19 fari lækkandi.
Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, sagði í gær að nú „meira en nokkru sinni áður“ yrðu Frakkar að standa saman vegna hinnar „gríðarlega öflugu“ þriðju bylgju faraldursins.
Tilfellum fjölgað hratt
Í fyrradag greindust um 45 þúsund ný tilfelli í landinu, 50 prósent fleiri en að meðaltali dagana á undan.
Philippe Juvin, sem fer fyrir bráðaþjónustu á einu stærsta sjúkrahúsi Parísar, sagði fyrr í vikunni að heilbrigðiskerfið í höfuðborginni og nágrenni væri komið að þolmörkum og eina leiðin væri að herða aðgerðir enn frekar. „Ástandið er grafalvarlegt.“
Hann og fleiri læknar hafa sagt að það sem veki einna mestan ugg sé fjöldi yngra fólks, á aldrinum 20-50 ára sem þarfnist sjúkrahúsinnlagnar. Fjöldi fólks undir 60 ára sem lagt hefur verið inn hefur aukist um tæp 16 prósent frá byrjun árs og til dagsins í dag. Hins vegar hefur fjöldi eldra fólks síður þurft innlögn en áður sem rakið er m.a. til árangurs af bólusetningum í þeim aldurshópi. Á einstökum sjúkrahúsum er fólk undir sextugu um helmingur allra COVID-veikra sem liggur inni sem er mun hærra hlutfall en í fyrstu bylgjunum.
Sérfræðingar telja að þetta tengist hinu breska afbrigði veirunnar. „Aldurssveiflan er samhliða útbreiðslu afbrigðisins,“ hefur dagblaðið Le Monde eftir Yves Cohen, forstöðumanni gjörgæsludeilda sjúkrahúsanna í París.
Þá eru kennarar ósáttir við að skólum sé enn haldi opnum. Smitstuðull veirunnar sé hár í augnablikinu og útbreiðslan því hröð.
Hið breska afbrigði er að knýja bylgjur faraldursins víðar í Evrópu þessa dagana. Mið- og Austur-Evrópa hefur orðið hvað verst úti og í Ungverjalandi er dánartíðni vegna COVID nú hæst allra landa veraldar. Tékkland fylgir þar á eftir.
Í Póllandi er ástandið einnig ískyggilegt. Þar eru dagleg smit nú í hæstu hæðum og yfirvöld hafa gripið til harðra aðgerða. Þau hafa m.a. lokað grunn- og leikskólum, íþróttahúsum og fjölda verslana sem veita ekki nauðsynlega þjónustu. Aðgerðirnar munu standa í að minnsta kosti þrjár vikur og því yfir páskana.
Í gær greindust yfir 34 þúsund ný tilfelli en yfir tvær milljónir manna hafa sýkst í landinu frá upphafi faraldursins. Tæplega 49 þúsund manns hafa látist vegna sjúkdómsins. „Heilbrigðiskerfið okkar er að nálgast þolmörk,“ sagði forsætisráðherrann Mateusz Morawiecki. „Við erum einu skrefi frá því að geta ekki sinnt sjúklingum almennilega. Við verðum að gera allt sem við getum til að forðast þá stöðu.“