Frá 1. júlí hafa rúmlega 9.200 manns greinst með COVID-19 hér landi og um 60 prósent voru fullbólusett við greiningu. Flest hinna smituðu á þessu tímabili hafa verið bólusett með Pfizer, þá Janssen, svo AstraZeneca og loks Moderna. Að sögn sóttvarnalæknis er ekki hægt að sjá út frá þessum tölum hvort eitt bóluefni fremur en annað sé að veita meiri eða minni vernd.
190 hafa lagst inn á sjúkrahús í þessari bylgju og voru flest þeirra bólusett með Pfizer, síðan AstraZeneca, þá Janssen og loks Moderna. „Sömuleiðis er ekki hægt að reikna virknina út frá þessum tölum því mismunandi margir voru bólusettir með bóluefnunum og eins var aldurinn mismunandi og tíðni undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við Kjarnann spurður út í virkni ólíkra bóluefna.
Um helmingur allra bólusettra hér á landi hefur fengið bóluefni Pfizer. Fæstir hafa fengið bóluefni Moderna eða aðeins 7,2 prósent landsmanna.
Herferð örvunarbólusetningar er hafin og í henni eru notuð mRNA-bóluefnin tvö; Pfizer og Moderna. Allir sextán ára og eldri munu fá boð í slíka bólusetningu og mun herferðin standa að minnsta kosti fram í febrúar á næsta ári.
„Við notum enn töluvert af Janssen en AstraZeneca er ekki lengur flutt inn,“ segir Þórólfur. „Það nýtist betur í öðrum löndum út af þeim takmörkunum sem við höfðum sett á notkun þess með tilliti til aldurs og kyns.“
Þeir skammtar af bóluefni AstraZeneca sem eru til í landinu eru notaðir í seinni skammta þeirra sem hafa ekki klárað bólusetningu tímanlega eða hófu hana erlendis og vilja klára með sama bóluefni.