Hvorki er gert ráð fyrir því að setja fjármagn í nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2022-2026 né nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í fyrradag.
Þar segir að áform um þjóðarleikvang í knattspyrnu séu enn það skammt á veg komin að ekki þótti tímabært að gera ráð fyrir fjármögnun í þessari áætlun. Ekkert er minnst á byggingu nýs þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir á borð við handbolta og körfubolta.
Í fyrrahaust sendu stjórnvöld frá sér tilkynningar þar sem sagt var að vonir stæðu til að nýr þjóðarleikvangur í knattspyrnu myndi rísa á næstu fimm árum og að fram undan væri að tryggja fjármögnun fyrir nýja höll fyrir inniíþróttir.
Hagkvæmast að byggja nýjan 15 þúsund manna völl
Þann 10. nóvember 2020 sendi mennta- og menningarmálaráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að ríkisstjórnin hefði samþykkt á fundi sínum þann dag að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingu nýs þjóðarleikvangs, að tillögu mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Í tilkynningunni var meðal annars haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að það væri löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og að hún væri „vongóð um að hann muni rísa á næstu fimm árum.“
Nú, rúmum fjórum mánuðum síðar, er ekki gert ráð fyrir því í áformum stjórnvalda að fjármagni verði veitt í verkefnið út árið 2026.
Viðræðurnar við Reykjavíkurborg áttu að byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs í fyrra.
Niðurstaða AFL var að hagkvæmasti kosturinn varðandi byggingu nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu væri að byggja nýjan fótboltavöll með sætum fyrir 15 þúsund áhorfendur og að ekki væri fýsilegt til langs tíma að ráðast í endurbætur á Laugardalsvelli.
Átti að „grípa skófluna“
Skömmu áður en að niðurstaða AFL lá fyrir, nánar tiltekið 22. september 2020, var birt tilkynning á vef stjórnarráðsins um að starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hefði skilað skýrslu um helstu valkosti er snúa að uppbyggingu slíks íþróttamannvirkis. Mennta- og menningarmálaráðherra hafði skipað starfshópinn til þess að afla upplýsinga um kröfur sem gerðar voru til mannvirkja sem hýsa alþjóðlega leiki og mót auk þess að greina þarfir fyrir slíkt mannvirki hérlendis.
Helstu niðurstöður hópsins voru þær að engin mannvirki á Íslandi uppfylltu þær kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handknattleik og körfuknattleik.
Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur yrði að byggja nýtt mannvirki. Verkís verkfræðistofa var fengin til þess að gera kostnaðarmat á byggingu mannvirkis ásamt því að leggja mat á rekstrarkostnað, þar sem mið var tekið af nýreistri íþróttahöll í Þrándheimi í Noregi sem tekur 8.600 manns í sæti.
Í tilkynningunni var haft eftir mennta- og menningarmálaráðherra að fram undan væri að tryggja fjármögnun og samvinnu við helstu samstarfsaðila. Síðar þyrfti að „ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga, íþróttaunnendur og iðkendur á öllum aldri.“
Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í byggingu þjóðarleikvangs fyrir inniíþróttir í fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026.