Í desember 2020 greindi Kjarninn frá því að 20 þingmenn, 18 úr stjórnarandstöðu og tveir þingmenn Vinstri grænna, hefðu lagt fram beiðni um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, láti gera skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi. Fyrsti flutningsmaður málsins er Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Þingmennirnir vildu að ráðherrann myndi láta taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu tíu árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni var sérstaklega farið fram á að í skýrslunni yrðu raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrði til umfjöllunar tilgreindir og samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.
Hanna Katrín birti stöðuuppfærslu um málið í fyrradag þar sem hún gerði grein fyrir því að hún hefði fengið skilaboð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í vikunni um að það gæti ekki unnið skýrsluna nema að umfang hennar yrði afmarkað við árin 2016 til 2019 í stað áratugar. Í stöðuuppfærslunni segir Hanna Katrín að hún hafi fallist á þá afmörkun og „gott betur því ég benti á hvar þau gætu nálgast tiltekin gögn og aðferðafræði. Ég er óbilandi bjartsýnismanneskja og í því bjarta ljósi spái ég að skýrslan komi fyrir næstu mánaðarmót.“
Umsvif útgerðarinnar í ótengdum atvinnurekstri: Það er ekki bara skýrslan um rekstrarstööu hjúkrunarheimila sem ég sakna...
Posted by Hanna Katrín Friðriksson on Wednesday, April 14, 2021
Fáir halda á miklu
Í greinargerð sem birt var með beiðninni þegar hún var lögð fram sagði að eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hafi batnað verulega frá hrunsárunum og að bókfært eigið fé þeirra hafi staðið í 276 milljörðum krónum við lok árs 2018, samkvæmt gagnagrunni Deloitte um afkomu sjávarútvegsins 2018. „Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir greinina hafi aukist í samræmi við það. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.“
Ljóst væri að sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggðist á einkaleyfi þeirra til nýtingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi, sérstaklega stærstu félögunum. „Vegna þessarar stöðu telja skýrslubeiðendur mikilvægt að upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaganna og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri hérlendis séu teknar saman, með greiningu á fjárfestingum þeirra. Með þessum upplýsingum er hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Yrði skýrsla þessi mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað.“
Eiga í ótengdum rekstri
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um aukin ítök stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í óskyldum geirum á undanförnum árum. Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með beint og óbeint yfir 17 prósent alls úthlutaðs kvóta, hefur til að mynda verið ráðandi í Eimskip og á stóran hlut í Jarðborunum.
Þá er SVN eignafélag, sem er í eigu Síldarvinnslunnar (Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut i henni), langstærsti eigandi Sjóvá með 14,52 prósent eignarhlut. Samherji átti lengi vel stóran hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en lánaði Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, til að kaupa þann hlut af sér. Eyþór hefur ekki endurgreitt það lán.
Kaupfélag Skagfirðinga, Hvalur hf., Stálskip og Ísfélag Vestmannaeyja eru dæmi um önnur félög í útgerð, eða sem voru í útgerð en hafa selt sig út úr henni, sem eru afar umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi.