Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hún og fleiri hafi séð fyrir sér að skilgreining laganna á hæfum fjárfestum myndi tryggja að stærri fjárfestar myndu fjárfesta í hlutum í Íslandsbanka frekar en minni.
Þetta segir ráðherrann í samtali við Kjarnann þegar hún er spurð hvort hún hafi efnislegar athugasemdir við framkvæmdina á sölunni á Íslandsbanka.
„Það er alltaf auðvelt að horfa til baka og vera mjög vitur eftir á en í þessu dæmi hafi það verið mat þessara sérfræðinga sem voru til ráðgjafar að það ætti að beina þessum viðskiptum fremur til stærri aðila en smærri.“
Í byrjun apríl var birtur listi yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa í Íslandsbanka í lokuðu útboði þann 22. mars þar sem afsláttur var veittur á almenningseign. Á listanum var meðal annars að finna föður fjármálaráðherra, útgerðarmenn, hrunverja, fólk í virkum lögreglurannsóknum, starfsmenn söluráðgjafa og ýmsa sem engum datt í hug að væru flokkaðir sem „fagfjárfestar“. Listinn hefur harðlega verðið gagnrýndur, og ferlið allt sömuleiðis.
Ýmis sjónarmið komu fram hjá ráðherrum
Athygli vakti þegar Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra sagði að hún hefði ekki verið hlynnt þeirri aðferðarfræði sem beitt var við söluna.
Katrín sagði í framhaldinu að hvorki Lilja né nokkur annar ráðherra hefði óskað að færa neitt til bókar um söluferli á hlut Íslandsbanka þegar málið var rætt í ríkisstjórn og ráðherranefnd um efnahagsmál.
En kom þessi gagnrýni fram með öðrum hætti, til að mynda í óformlegu samtali?
Katrín útskýrir verklagið hjá ráðherrum í ríkisstjórninni og segir að iðulega sé fyrst haldinn ráðherrafundur og í kjölfarið fundur í ríkisstjórn. „Það er alveg rétt og satt að þar koma fram ýmis sjónarmið hjá ráðherrum. Ég tala bara fyrir mig, þar sem þessar umræður eru alltaf trúnaðarmál, að ég setti þar fram sjónarmið sem ég viðraði opinberlega síðar sem varðar sérstaklega markmið laganna um gagnsæi; að upplýsingamiðlun til almennings og fleira yrði tryggð með þessari aðgerð.
Aðrir ráðherrar viðruðu sín sjónarmið en niðurstaðan var auðvitað sameiginleg þar sem engin andstaða var bókuð við niðurstöðuna.“
Katrín ítrekar að niðurstaðan hafi verið sameiginleg og engin andstaða bókuð. „Eðlilega eru þessi mál rædd og ólík sjónarmið uppi, það á ekki bara við um þetta mál. Það er alveg algjörlega rétt. En niðurstaðan er samt þessi og enginn sem bókar andstöðu við hana.“
En þú vilt ekki tjá þig um það hvort Lilja hafi sett fram þessa gagnrýni á fundum eða ekki?
Katrín segir að hún megi ekki tjá sig um hvað aðrir ráðherrar segi á þessum fundum. Umræðurnar séu sem slíkar trúnaðarmál en hún staðfestir að ráðherrar hafi komið fram með ýmis sjónarmið í þessu máli.
Ferlið ekki staðist væntingar
Telur þú að salan á Íslandsbanka hafi rýrt traust almennings til stjórnmálanna?
„Mér finnst það morgunljóst að við þurfum að taka þá gagnrýni mjög alvarlega sem hefur komið fram á þessa sölu. Og þetta er viðurhlutamikil ákvörðun að ákveða að selja hlut af almannaeign. Það eru skýr ákvæði í lögum að það þurfi að vera gagnsæi og það þurfi að vera virk upplýsingamiðlun til almennings. Ég verð að segja það að það hefur ekki staðist mínar væntingar, hvernig að því var staðið. Og það er auðvitað undirstaða traustsins; þetta gagnsæi.
Þess vegna finnst mér svo mikilvægt, því þú spyrð um traust, að við megum ekki gleyma því að þetta samfélag gekk í gegnum mikið áfall fyrir fjórtán árum sem auðvitað er ennþá mjög ríkt í okkur. Það er hlutverk okkar núna að það verði algjörlega tryggt að allt í þessu ferli verði skoðað,“ segir hún.
Vill að Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun fái svigrúm til að skoða málið
Katrín bendir á að tvær rannsóknir séu í gangi, annars vegar hjá Ríkisendurskoðun og hinsvegar Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Hún segir að Fjármálaeftirlitið hafi ríkar heimildir til þess að skoða þá aðila sem önnuðust söluna fyrir Bankasýsluna. Þar sé verið að skoða ákveðna þætti sem hafa verið í umræðunni, til að mynda hvort hæfir fjárfestar uppfylltu skilyrði laganna um hæfa fjárfesta, um meðferð innherjaupplýsinga og hvort söluaðilar hafi sjálfir verið að „höndla“.
„Allt þetta er til rannsóknar hjá Seðlabankanum og ef það kemur í ljós til að mynda að söluaðilar hafi farið rangt að þá er það auðvitað mjög alvarlegt mál,“ segir hún.
Hún segir þegar hún er spurð út í ósk stjórnarandstöðunnar að skipa rannsóknarnefnd Alþingis að Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn hafi ákveðið hlutverk samkvæmt lögum.
„Ég tel það málefnalegt og skynsamlegt að þær stofnanir fái svigrúm til að ljúka sinni skoðun á þessum máli og í kjölfarið tökum við ákvörðun um það hvort við þurfum og viljum kafa dýpra í þetta mál og hvort þess þurfi. Ég ímynda mér að það yrði núna í vor, áður en þing fer heim, þannig að þá gefst tækifæri til að ræða þetta á þinginu. Það er algjörlega skýrt af minni hálfu og okkar hálfu í VG að við viljum að allt komi upp á borðið,“ segir hún.
Veit ekki betur en að fjármálaráðherra hafi ekki vitað hverjir keyptu
Mótmæli fóru fram á Austurvelli síðustu tvær helgar. Síðastliðinn föstudag mættu til að mynda mörg hundruð manns þar sem þess var krafist að Íslandsbankasölunni yrði rift, stjórn Bankasýslunnar viki og að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra færi úr embætti.
Hvað finnst þér um þessar kröfur?
Varðandi Bjarna þá segir Katrín að löggjöfin geri ráð fyrir því að Bankasýslan annist framkvæmdina í armslengd frá framkvæmdavaldinu.
„Ég hef engar upplýsingar um annað en að til að mynda að fjármálaráðherra hafi ekki haft neinar upplýsingar um þessa kaupendur frekar en ég fyrr en allt var um garð gengið.
Þess vegna segir ég að það sé svo mikilvægt að við ræðum það á þinginu hvort að það sé ekki eðlilegt að hið lýðræðislega vald hafi ríkari eftirlitsskyldu með þessu fyrirkomulagi þar sem við höldum utan um okkar eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Er ekki eðlilegt að hið lýðræðislega vald hafi eftirlit og meiri aðkomu að ákvörðunum? Til dæmis ef ákveðið er að selja einhvern hluta í banka að það sé beinlínis borið undir Alþingi frekar en það sé eingöngu þannig að þingnefndirnar veiti umsagnir? Þannig að ég held að við þurfum að horfa á fyrirkomulagið í þessu.“
Þurfa að vanda sig
Ríkisstjórnin sendi út yfirlýsingu í morgun þar sem fram kemur að hún hafi ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. „Þar verður lögð áhersla á ríkari aðkomu Alþingis og að styrkari stoðum verði skotið undir að tryggja gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Frumvarp þessa efnis verður lagt fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er,“ sagði í yfirlýsingunni.
Hvað varðar riftun sölunnar þá segir Katrín að hún hafi ekki nægar upplýsingar til þess að leggja mat á það. „Við þurfum bara að bíða eftir þessum niðurstöðum, við þurfum að vanda það hvernig við gerum þetta og meta í raun og veru. En eins og ég skil þetta að ef eitthvað kemur upp sem bendir til þess að það hafi ekki verið farið að lögum eða reglum þá eru ákveðin viðurlög við því í okkar löggjöf. En ég segi það bara skýrt að ég sé ekki að það sé hægt að leggja mat á það fyrr en þetta liggur fyrir.“
Verðum að hafa þolinmæði til að bíða eftir niðurstöðunum
Finnst þér eðlilegt að Bjarni sitji áfram í embætti í ljósi þess hvernig salan fór og í sambandi við traust almennings á stjórnmálum?
Katrín segir að formenn stjórnarflokkanna séu allir sammála um að þessi sala hafi ekki uppfyllt væntingar þeirra út frá lögunum um gagnsæi, upplýsingagjöf og annað – og horfi þau á þessa framkvæmd út frá því.
„Síðan eru það þessi atriði sem eru til rannsóknar og ég held að ég geti líka sagt að við séum sammála um að það er gríðarlega mikilvægt, einmitt upp á traustið, að allt komi upp á borð. En ég vil líka segja það að við verðum að hafa þolinmæðina til að bíða eftir þeim niðurstöðum.“