Embætti landlæknis segist styðja þá nálgun að að refsa ekki einstaklingum sem glíma við heilbrigðisvanda eins og ávana eða fíkn og auka heilbrigðisþjónustu. Íumsögn sinni um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem felur í sér afglæpavæðingu neysluskammta, er stuðningurinn rökstuddur, en á sama tíma bendir embættið á að varhugavert sé að stíga skrefið án þess að móta heildarstefnu í málaflokknum. Sérfræðingar á vegum embættisins eru reiðubúnir að vera til ráðgjafar um þau áform sem fram koma í frumvarpinu.
Frumvarpið felur í sér breytingu á ákvæði núgildandi laga um vörslu og meðferð, „á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota“. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er flutningsmaður frumvarpsins og var það endurflutt, með breytingum, í desember. Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi um þetta efni síðastliðið, sem ekki varð að lögum. Áður höfðu tvö frumvörp Halldóru um efnið ekki náð fram að ganga.
Frumvarpið er nú hjá velferðarnefnd og frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið rann út 18. febrúar. Alls bárust 29 umsagnir.
Allar breytingar kalli á heildræna nálgun
Í umsögn sinni ítrekar Embætti landlæknis fyrri afstöðu um að nálgast málefni þeirra sem eiga í vanda vegna notkunar eða misnotkunar vímuefna fyrst og fremst sem heilbrigðisvanda.
Embættið undirstrikar einnig að allar breytingar á málaflokknum kalli á heildræna nálgun og víðtækt samráð, þar á meðal við félagsmálayfirvöld.
Embættið segir það til bóta að í frumvarpinu er tekið tillit til þeirra áhrifa sem breytingarnar geta haft svo hægt sé að áætla afleiðingar þeirra. Er það meðal annars gert með að leggja til stofnun starfshóps til að fylgjast með hugsanlegum áhrifum og ávinningi breytinganna.
Afglæpavæðing ekki kraftaverk
Á sama tíma gerir embættið athugasemdir við að hvergi í frumvarpinu komi skýrt fram tillaga eða áætlun um auknar forvarnir. Í umsögninni er vísað í afglæpavæðingu neysluskammta í Portúgal þar sem gerð var langtímaáætlun og metnaðarfullar fjárfestingar í heilbrigðisþjónustu ásamt umfangsmikilli heildrænni stefnu. Vísar embættið í orð Joao Goulao, sem fór fyrir tillögunni í Portúgal, sem sagði afglæpavæðingu ekki kraftaverk. „Ef þú gerir aðeins það, þá versnar ástandið“.
Embættið bendir einnig á stuttan undirbúningstíma þar sem lögin eiga að taka gildi 1. júní næstkomandi.
Þá leggur embættið til að breytingarnar verði ekki innleiddar nema sem hluti af opinberri stefnu um málaflokkinn, annað hvort í uppfærðri Stefnu í áfengis- og vímuvörnum, sem rann út árið 2020, eða í nýrri stefnu.
Embættið leggur því til að skipaður verði hópur sérfræðinga sem fer á heildrænan hátt yfir málaflokkinn og skili af sér tillögum um aðgerðir eða heildrænni stefnu þar sem fram kemur ítarleg aðgerðaáætlun sem tekur til allra þátta vímuefnavandans, allt frá forvörnum, meðferðar og samfélagslegrar aðlögunar. „Þetta verði gert án tafar,“ segir í umsögn embættisins og eru sérfræðingar þess reiðubúnir að vera til ráðgjafar um áformin.